Dýravelferð - hvar eru mörkin?
,,Þú mátt gera allt við dýrið þitt nema að meiða það”
Þessi grundvallarsetning sem lærifaðir minn í dýralækningum predikaði fyrir mér hefur oft komið í huga minn á undanförnum vikum og dögum í umræðunni um bæði blóðtökuhryssur, hundarækt og fl. Orðið að ,,meiða” er svo gott í íslensku máli. Hver skilur ekki það orð? Merking þess hefur svo margar grundvallarþýðingar eins og; ,,skadda, skemma, skaða, slasa, svekkja særa og fl.” Í skilningi orðsins erum við samt að gera allt þetta við dýrin, okkur til hagsbóta og þótta.
Til ,,þótta” segi ég með tilliti til stefnu ýmissa fagurfræðilega sjónarmiða innan hundaræktarsamfélagsins. Ræktun hundakynja sem vart geta andað vegna vansköpunar á andliti með tilliti til nefs og efri öndunarfæra auk kynja sem ekki geta fjölgað sér vegna ófrjósemi og fæðingarörðugleika, húðvandamála og fl. Ætla ég ekki að reyna að telja upp öll þau heislufarslegu vandamál sem hunda- og kattaræktendur heimsins standa frammi fyrir á komandi árum og áratugum ef svo heldur áfram. Allt í ljósi fagurfræði mannsins og hégóma, án tillits til líðan dýranna.
Þegar kemur að dýrahaldi vegna annarra hugsjóna þ.e. matvæla- og lyfjaframleiðslu þá skal snúið sér beint að blóðtökuhryssunum, sem mest hafa verið í umræðunni að undanförnu. Fyrir hverja er þetta gert? Hvert er gróðasjónarmiðið? Öflun hormóns til fjöldaeggloss hjá gyltum? Við höfum ekki séð í ritum nokkurn annan ávinning. Í heiminum eru gyltur orðnar það frjósamar að þær hafa yfirleitt ekki nægan spenafjölda til að anna þeim grísum sem þær fæða þannig að barátta verður innan hópsins hjá grísunum um að fá spena. Af því leiða sár á spenum og vanlíðan gyltnanna. Er verið að sækjast eftir því? Allt gert til að afla ódýrari og hagkvæmari matvæla og hverjir krefjast þess? Jú við neytendur sem viljum ódýrara kjöt.
Í þessum orðum er ég ekki að réttlæta meðferð á blóðtökuhryssum, enda myndi ég aldrei sjálfur gefa nokkra hryssu frá mér í slíka meðferð, heldur er ég að reyna að fá fólk til að hugsa um dýr sem einstaklinga í samveru og návist við manninn.
Hunda og ketti annast menn vegna vináttu og nærveru sem félaga í nábýli. Í hrossarækt er verið að rækta hross fólki til gleði, samveru, útreiða, keppni og sýninga. Í annarri búfjárrækt ræktum við hænur til eggjaframleiðslu, grísi til kjötframleiðslu og kýr til mjólkurframleiðslu. Allt í þágu okkar þarfa með tilliti til lífsviðurværis. Því miður í seinni tíð meira með gróðahyggju að leiðarljósi en væntumþykju.
Markmið þessa stutta pistils er einfaldlega sá, að við hugsum öll til hvers er samlífi okkar við dýrin og til hvers ætlumst við af þeim án þess að ofbjóða þeim.
Þau eiga rétt á að lifa sýnu lífi þó oft stutt sé, í sómasamlegu nábýli við hinn svokallaða viti borna mann “homo sapiens” Allt eftir því um hvaða dýrategund er að ræða skulu menn ala þau og annast með tilliti til þeirra þarfa, sýna þeim velvild og nærgætmi og aldrei ,,meiða “ þau.
Páll Stefánsson, dýralæknir.