Um ormalyfjagjöf

Ráðlegging að kerfisbundinni ormalyfsgjöf

Folöld og folaldshryssur:

1. Snemma vors, ef hryssan hefur ekki fengið langvirkandi ormalyf um veturinn, er henni gefið ivermectinlyf (Eqvalan, Noromectin eða Bimectin). Einnig getur verið gott að gefa hryssunni in um leið og hún er köstuð, sérstaklega ef hún kastar seint og hefur verið lengi á sumarbeit. Þá getur Zerofen líka hentað.

2. Þegar folaldið er 4-6 vikna (t.d. þegar hryssan fer til eða kemur frá hesti): Eqvalan/Bimectin handa báðum. Í sparnaðarskyni er ásættanlegt að gefa hryssunni Zerofen í staðin en ekki borgar sig að spara þegar folaldið á í hlut.

3. Ef hryssan hefur kastað snemma getur verið gott að ormahreinsa aukalega seinni part sumars. Þá er gott að nota annað lyf en var notað fyrr um vorið.

4. Um haustið þegar folaldið er 3-4 mánaða gamalt er gott að gefa því inn Zerofen gegn fullorðnum spóluormum. Hryssunni er gefið með sérstaklega ef hún hefur gengið í þröngu hólfi allt sumarið og ekki fengið ormalyf.

5. Í byrjun vetrar (þegar tekið er undan): Bæði hryssunni og folaldinu gefið Equest Pramox eða dýralæknir fenginn til að sprauta undir húð.

Tryppi og fullorðin hross:

Algert lágmark er að ormahreinsa öll hross tvisvar á ári, t.d. áður en sleppt er á vorin og aftur þegar er skipt yfir í haustbeit eða hross tekin á hús. Tryppi fram að tamningaraldri þurfa tíðari ormalyfjagjafir en eldri hross.

1. Áður en sleppt er á sumarbeit eða hross færð í reiðhestahólf: Gjarnan Equest Pramox (virkar yfir sumarmánuðina), sérstaklega ef ekki hefur verið sprautað með Dectomax um veturinn. Annars ivermectinlyf (Eqvalan, Bimectin, Noromectin) eða Banminth eða Eqvalan Duo ef ekki var gefið bandormalyf um haustið. Það er gott að skipta milli lyfjaflokka milli ára til þess að sporna gegn myndun lyfjaónæmis. Mælt er með að gefa inn ormalyf þremur dögum áður en hrossunum er sleppt til þess að verja beitiland gegn mengun af lyfjaleifum.

2. Um mitt sumar: Zerofen. Sérstaklega mikilvægt fyrir tryppi eða hross sem eru í þröngu reiðhestahólfi allt sumarið. Má sleppa ef hrossið hefur fengið Equest um vorið.

3. Haust eða snemma vetrar: Equest Pramox, eða láta dýralækni sprauta með Dectomax undir húð. Annars ivermectinlyf. Zerofen virkar lítið sem ekkert á þessum árstíma.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *