Um fóðrun hunda

Fóðrun á fullvöxnum hundum

Fullvaxna hunda á að fóðra einu sinni á dag og þá helst að morgni. Ef gefið er á kvöldin þá þurfa þeir frekar að míga og hafa hægðir á nóttunni sem er heldur hvimleitt fyrir eigandann. Það er þó ekki þar með sagt að ekki megi gefa dýri oftar á dag ef fólk vill, en því miður hafa margir vanið sig á að gefa sínum gæludýrum þegar þeir fá sér sjálfir að borða en það er ekki alltaf gott vegna þess að matmálstíðir okkar mannanna eru allt of óreglulegar nú á tímum. Dýrin þurfa á reglulegum matmálstíðum að halda, það eykur öryggistilfinningu og festir í sessi stöðu dýrsins á metorðastiganum innan fjölskyldunnar. Ef um vandamál er að ræða svo sem léleg matarlyst sökum veikinda eða elli þá er nauðsynlegt að hliðra til með fóðrunartíma og gefa minna og oftar. Hundar sem eru í fullri vinnu s.s. smalahundar, varðhundar, veiðihundar og fl, ættu að fá að éta tvisvar á dag til þess að orkuþörf þeirra sé fullnægt. Svo er einnig með tíkur í lok meðgöngu og tíkur sem eru með hvolpa á spena. Stórum hundategundum er mælt með því að gefa tvísvar á dag til þess að minnka líkurnar á magasnúningi.

Erfitt er að fastsetja nákvæmlega hvað hver og einn hundur þarf að éta daglega en það er mjög breytilegt eftir því hversu mikið hann hreyfir sig og einnig af hvaða stofni og kyni hann er. Hver og einn verður að meta ástand síns hundsins eftir holdafari, útliti, einkennum og atferli og fóðra í samræmi við það.

Hvolpar og hundar í vexti
Um 4. vikna aldur fara hvolpar að skoða umhverfi sitt og hreyfa sig mikið. Á þessu aldursskeiði er nauðsynlegt að hefja fóðrun á þeim með móðurmjólkinni og þurfa þeir orkuríkt fóður. Mikilvægt er að það fóður sem þeir fá á þessu aldri sé hentugt þ.e.a.s. tiltölulega mjúkt og blautt þannig að þeir vilji éta það. Það þarf líka að vera bragðgott og auðmeltanlegt þannig að þeir dafni og vaxi eins og vera ber.Þurrfóður getur þurft að bleyta upp með vatni eða mjólk þannig að hvolpar éti það.Hvolpar sem vandir hafa verið undan móður þurfa u.þ.b. 2-3 sinnum meiri orku miðað við þyngd en fullvaxinn hundur og til að byrja með skal gefa þeim 4-6 sinnum á dag. Gjöfum fækkar eftir því sem þeir stækka. Þegar þeir hafa náð helmingi af kjörþyngd sinni sem fullvaxnir hundar eiga gjafir að vera komnar niður í tvær á dag.Minni hundategundir ná fullum vexti við 9-12 mánaða aldurinn en stærri hundakyn eru ekki fullvaxta fyrr en 18-24 mánaða gamlir.

Hvolpafullar tíkur
Jafnt og með kettlingafullar læður þá þurfa hvolpafullar tíkur á síðustu vikum meðgöngu orkuríkara fóður en til viðhalds.Oftast er ekki hægt að átta sig á því hversu mörg afkvæmi koma til með að fæðast þannig að alltaf verður að búast við hámarksfjölda afkvæma við hvert got. Þetta þýðir að við verðum að gefa 2-4 sinnum meira orkuinnihald í fóðri síðustu tvær vikur meðgöngu og 4-6 vikur eftir got til þess að móðirin haldi heilsu sinni og holdum og getu til fæðingar, mjólkurmyndunar og framfærslu hvolpanna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *