Tannhirða hrossa

Tennur og vandamál tengd þeim í hrossum

Eftirlit með tönnum hrossa og aðgerðir gegn vandamálum sem upp kunna að koma í munni hrossa skipa stóran sess í heilbrigðiseftirliti og lækningum þeirra. Segja má að tannvandamál hjá hrossum séu þekkt frá örófi alda, enda hesturinn í árþúsundir þróað tennur sínar í þá veru að bíta gras með framtönnunum og mala það síðan með jöxlunum.

Hrosstennur eru sérlega slitþolnar og óreglulegur slitflötur jaxlanna er vel til þess fallinn að mala fóðrið smærra sem er upphafið á meltingarferlinu í líkamanum og eitt af því mikilvægasta til þess að hesturinn nýti fóður sitt vel. Brúkunarhross nútímans lifa við talsvert aðrar aðstæður en villtir forfeður þeirra þar sem þau neyta unnins eða tilbúins fóðurs í uppvexti og á húsi auk þess sem sett er upp í þau beisli vegna notkunar.

Hrossum er það eðlilegt að mynda litla hnoðra eða bagga úr fóðrinu sem tungan færir síðan nær kokinu milli þess sem þeir eru malaðir á milli tannanna. Þar sem þessir hnoðrar haldast saman getur neðri kjálkinn ýtt fóðrinu yfir slitfleti efri tannanna og þannig á sér stað jafnt og eðlilegt slit jaxlanna. Fíngerðara fóður eins og t.d. fóðurkögglar eða kornfóður valda því að hliðarhreyfingar kjálkanna verða minni og slitflötur tanna er ver nýttur. Fleiri ástæður liggja að baki minni kjálkahreyfingu og misslits á tönnum hjá hrossum eins og eymsli eða sár í munni út frá tannskiptingu, brotnar eða skemmdar tennur, sár í munnslímhúð og ýmislegt fleira. Misslit vegna minni kjálkahreyfinga valda því að tannbroddar og skarpar brúnir myndast á tönnum sem aftur valda áframhaldandi eymslum í kjafti. Þennan vítahring verður að rjúfa með því að lagfæra misslitið og fjarlægja tannbroddana.

Þegar hross eru á bilinu 2-5 ára skipta þau út mjólkurtönnum fyrir fullorðinstennur. Við tannskiptin getur komið fyrir að mjólkurtennurnar víkji ekki strax og getur því þurft að fjarlægja þær. Um 5 ára aldur eiga allar varanlegar tennur að vera komnar og tannskiptum lokið. Strax þá er nauðsynlegt að fjarlægja ójöfnur og brodda á tönnum. Reyndar á að skoða tennur á ungum tryppum strax í upphafi tamningar til þess að hindra vandamál sem geta skapast af tannbroddum og skoða árlega þaðan í frá hvort allt sé með felldu í kjafti.

Efitlit dýralækna með tönnum hrossa fer sífellt vaxandi og er það orðin föst venja hjá okkur að deyfa hross áður en einhverjar aðgerðir eru framkvæmdar í munnholi. Felst það fyrst og fremst í miklu meira öryggi fyrir hrossið sjálft og einnig dýralækninn auk þess sem vinnubrögð viðkomandi verða mun betri og markvissari. Við þetta eftirlit er athugað hvort klofnar eða brotnar tennur séu til staðar, hvort bólgur eða sár séu í munnslímhúð, tungu eða tannslíðrum og hvort vandamál hafi skapast vegna tannskipta.

Síðan eru tannbroddar og misslit lagfært með tannröspum og síðast en ekki síst athugað hvort svokallaðar úlftennur séu til staðar og þær þá í flestum tilfellum fjarlægðar. Úlftennur eru tennur sem finnast aðeins í sumum hrossum og eru þær þróunarleifar, rétt eins og svokölluð griffilbein á fótum. Þær eru staðsettar fyrir framan jaxlana ( yfirleitt í efri skolti ) í slímhúðinni eða undir henni. Snerting úlftanna við beislismél og erting slímhúðarinnar valda hrossum vanalega óþægindum og er því nauðsynlegt að fjarlægja þær með lítilli aðgerð.

Að lokum er rétt að benda hestamönnum á fáein atriði sem bent geta til vandamála í tönnum hrossa og skal skýrt tekið fram að þessi upptalning er alls ekki tæmandi;
– ef hestur fjarlægir grófari hluta fóðursins og skilur eftir,
– ef hross drekka minna getur verið um tannkul að ræða út frá tannskemmd,
– ef hálftuggið fóður er eftir í stalli,
– ef hross er mjög lengi að éta,
– ef hross hristir mikið hausinn eða skekkir sig í reið,
– ef blóð er í froðu eða á beislismélum.

Hrossin okkar þurfa ekki síður á tannhirðu að halda en við.

Páll Stefánsson, dýralæknir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *