Lifrarbólga í hundum

Smitandi lifrarbólga í hundum.

Þessi smitsjúkdómur er alvarlegur veirusjúkdómur og er það adenóveira af gerð 1 sem veldur honum. Smitleiðir eru með saur, þvagi, munnvatni og blóði. Frá því að hundur smitast líða vanalega 4-7 sólarhringar þangað til sjúkdómurinn kemur í ljós og geta hundar verið smitberar allt upp í ár eftir að þeir veikjast. Veiran veldur mestum skemmdum í lifur en einnig í öðrum líffærum. Einkenni byrja með særindum í hálsi, hósta, háum hita, listarleysi og jafnvel lungnabólgu. Kviður verður viðkvæmur. Hundurinn fær bjúg í augun sem veldur því að augun verða blá og er það einkennandi fyrir þennan sjúkdóm. Þegar innri líffæri eins og lifur og nýru gefa sig geta komið krampar, þorsti, uppköst og niðurgangur. Hundar geta dáið skyndilega jafnvel áður en nokkur sérstök sjúkdómseinkenni koma í ljós. Einkennum þessa sjúkdóms getur svipað til smáveirusóttar (parvóveiru), en það er sjúkdómur sem veldur blóðugum niðurgangi en þessi sjúkdómur er ekki eins smitandi og smáveirusóttin.

Engin lyf eru til við smitandi lifrarbólgu en hundurinn fær þó stuðningsmeðhöndlun sem hjálpar honum að komast í gegnum sjúkdómsferlið. Bólusetningar geta dregið úr einkennum sjúkdómsins, en eins og staðan er í dag er ekki til bóluefni sem virkar beint gegn þessum sjúkdómi hér á landi heldur aðeins bóluefni af skyldri gerð þannig að mótstaða dýrsins verður einhver gegn þessum sjúkdómi.

Ef fólk verður vart við einkenni sjúkdómsins eða ef hundur deyr skyndilega er gott að hafa samband við dýralækni svo greina megi sjúkdóminn og kortleggja tíðni og útbreiðslu hans hér á landi.
Nokkur tilfelli greindust í sumar aðallega á höfuðborgarsvæðinu en örfá hér á Suðurlandi.

Dregið hefur aftur úr tíðni sjúkdómsins nú á haustdögum að öllum líkindum vegna veðráttu og minni samgangs á milli hunda.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *