Got hjá tíkum

Oft hringja til okkar að Stuðlum áhyggjufullir hundaeigendur með tík komna að goti. Hér er ætlunin að fjalla lítillega um gang eðlilegs gots hjá tík og benda á hvenær skal haft samband við dýralækni.

Aðdragandi gots. Tíkur ganga með hvolpana í 63 daga eftir egglos. Frá þessu eru þó ýmis frávik, því oftast er ekki vitað hvenær egglos var og “meðgögnutíminn” getur þá verið frá 58 upp í 68 dagar frá pörun. Nokkrum dögum fyrir got sígur legið niður í kviðinn svo tíkin verður “perulaga” í vextinum. Skeiðin stækkar og mýkist og oft kemur mjólk í spenana. Gott er að fylgjast með líkamshita tíkanna þegar styttist í got, því sólarhring (12-36 klst) áður en gotið hefst lækkar líkamshitinn hjá tíkinni um allt að einni gráðu, t.d. úr 38,5°C niður fyrir 37,5°C. Þegar hitinn hækkar á ný styttist í fæðingu hvolpanna. Gott er að vera búinn að mæla tíkina áður til þess að vita hver hennar venjulegi líkamshiti er.

Misjafnt eftir tíkum hvort þær vilja hafa eigandann hjá sér meðan á goti stendur. Sumar sækja traust til eiganda sinna, á meðan aðrar stressast upp og “halda í sér” þangað til þær fá næði. Verður því hver og einn að “lesa” sína tík.

Got hefst með útvíkkun. Tíkin sýnir merki um vanlíðan, er eirðarlaus, andar þungt og er símígandi. Legið er nú farið að dragast saman og tíkin notar einnig kviðvöðvana til að færa hvolp í fæðingarveginn láta hann ýta á leghálsinn sem opnast smátt og smátt. Oft kemur nú þykkt slím frá tíkinni, skeiðin mýkist upp og stækkar. Útvíkkunin tekur oftast 6 til 12 klukkustundir þó ekki sé óeðlilegt að hún geti tekið frá tveimur tímumog upp í einn og hálfan sólarhring. Líkamshitinn lækkar fyrst eins og áður sagði og hækkar þegar útvíkkun er lokið.

Fæðing hvolpanna. Hvolparnir eru hver og einn í sínum poka/fylgju sem ég segi til einföldunar að gerð sé úr tveimur lögum; ytra og innra lagi. Þegar útvíkkun er lokið verða hríðirnir markvissari og það birtist blágrár belgur í fæðingaropinu (ytra lagið). Belgurinn getur sprungið í fæðingarveginum og þá er talað um að “vatnið fari”. Fósturvatnið er oftast lyktarlaust (ekki þvaglykt) og glært eða jafnvel með grænleitum blæ. Stuttu seinna birtist gráhvít “kúla” (innra lagið), með hvolpinum í og hvolpurinn fæðist. Þegar hvolpurinn er kominn, sleikir tíkinn hann, losar hann við fósturhimnuna (pokann) og bítur sundur naflastrenginn. Ef þarf má hjálpa henni við að opna pokann og slíta naflastrenginn. Nauðsynlegt er að hafa eitthvað tiltækt til að binda/klemma fyrir naflastrenginn ef ekki hættir að blæða úr honum svo hvolpnum blæði ekki út.

Það líður vanalega skammur tími frá því að hvolpur sést í fæðinarvegi og þar til hann er kominn í heiminn Tíminn á milli hvolpa er hins vegar misjafn en eðlilegt telst frá 5 mínútum og upp í 2 klukkustundir og getur jafnvel farið upp í 4 tíma undir lok fæðingar hjá tík sem er með marga hvolpa. Miðað er við að fæðing hvolpanna eigi ekki að taka meira en 12 klukkustundir. Lengri tími en það eykur hættuna á dauðfæddum hvolpum og legbólgu.

Þegar síðasti hvolpurinn er fæddur leggst tíkin vanalega fyrir, hvílir sig og leyfir hvolpunum að sjúga. Hríðirnar hætta þá vanalega þó samdrættir eftir fæðingu þekkist.

Fæðing fylgjanna. Oftast kemur fylgjan með hverjum hvolpi, en stundum koma nokkrar fylgjur saman. Tíkurnar éta oft fylgjurnar (og ættu að fá að éta a.m.k eitthvað af þeim), en telja ætti hvort þær séu ekki jafnmargar hvolpunum. Fylgjurnar ættu að vera komnar 8 klukkustundum eftir að síðasti hvolpinum kom, annars er hætta á legbólgu.

Hreinsun. Eðlilegt er að það sé útferð frá tíkinni eftir got. Fyrst er hún dökk, jafnvel grænleit og síðar verður hún blóðlitaðri. Hreinsunin tekur oftast tvær til þrjár vikur.

Hvenær á að hafa samband við dýralækni?

1. Ef það er enginn hvolpur kominn, líkamshitinn er hækkaður upp í eðlilegan hita, tíkin er með hríðir og

* það er dökk/svartgræn útferð úr skeið
* “vatnið fór” fyrir meira en 2 klst en ekkert gerist
* vægar hríðir af og til í 2-3 klst
* kröftugar, reglubundnar hríðir í meira en 20-30 mín

2. Ef hlé verður á gotinu.

* Sjá punkta hér að ofan
* Meira en 4 klukkustundir liðnar frá því síðasti hvolpur kom og það eru fleiri í tíkinni
* Tíkin er búin að vera að í meira en 12 tíma

3. Eftir gotið ef

* fylgjurnar komu ekki allar
* óeðlilegar blæðingar eru úr skeið
* ólykt er af útferð
* tíkin er slöpp

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *