Eyrnabólga í hundum

Eyrnabólga er ein af algengustu ástæðum þessa að hundar þurfa aðstoð dýrlæknis. Hafi hundurinn einu sinni fengið eyrnabólgu er ekki ólíklegt að hann fái hana aftur.

Eyrnalag hundsins er öðruvísi en hjá manninum. Eyrnagönginn stefna lóðrétt niður 3-5 cm og beygja svo snögglega um 90° þar sem hljóðhimnan liggur. Vegna legu eyrnaganganna loftar ekki nógu vel inn í eyrun og myndast þá hiti og raki sem skapar kjöraðstæður fyrir bakteríur og sveppi til að fjölga sér. Hundar með síð eyru eru sérlega gjarnir á að fá eyrnabólgur. Gæta skal þess að þurrka eyru á þeim hundum sem svamla mikið í vatni því annars eru mun meiri líkur á sjúkdóminum en ella. Hundar geta verið með löng hár í eyrum og er gott að klippa þau þannig að óhreinindi safnist ekki fyrir og valdi eyrnabólgum. Verra er að plokka hárin því þá bólgna hársekkir og sýking getur komist í þá.

Ástæður eyrnabólgu eru nokkrar; bakteríusýking, sveppasýking , aðskotahlutur, ofnæmi eða sníkjudýr eins og t.d eyrnamaur. Hundur með eyrnabólgu hristir hausinn og klæjar í eyrun, stoppar jafnvel við leik eða í göngu til að klóra sér og nudda sér utan í fasta hluti. Í einstaka tilfellum klóra þeir sér það mikið eða hrista hausinn svo skarpt að æð springur í eyranu og myndast þá blóðeyra þar sem blóð safnast í eyrnablöðkunni sem oftast þarf að tæma með með lítilli aðgerð.

Það verður oft vond lykt af hundum með eyrnabólgur. Eyrun verða rauð og sár geta myndast. Útferð úr eyra er gulbrúnn eða dökkbrúnn eyrnamergur. Í langvarandi eyrnabólgum verður húðin þykk. Ef eyrnabólga er það slæm að hljóðhimna springur og sýking kemst í innra eyra getur höfuðið farið að halla og hundurinn gengur jafnvel í hringi. Þá þarf að bregðast skjótt við. Sýkingar í innra eyra geta einnig komið innan frá t.d. í gegnum blóðrásina. Ef um ofnæmi er að ræða klæjar hundinn oft á fleiri stöðun t.d undir kvið og feldurinn verður mattur og flasa myndast.

Eyrnabólgur þarf að meðhöndla strax hvort sem um bráða eða endurtekna eyrnabólgu er að ræða. Ávall skal láta dýralækni skoða eyrun áður en meðhöndlun hefst og alls ekki nota gamla dropa frá fyrri meðhöndlunum þar sem önnur ástæða getur legið fyrir eyrnabólgunni í þetta skiptið. Dýralæknir þarf að meta hljóðhimnu og útiloka að hún sé sprungin því ekki má nota eyrnalyf beint í eyrað ef hún er sködduð. Eyrnabólgur eru meðhöndlaðar með fúkkalyfjum og stundum barksterum sem draga úr bólgum og kláða. Fúkkalyfin geta verið í töfluformi eða lausn (dropar) sem sett eru beint í eyrun. Mikilvægt er þá að eyru séu hrein annars virka eyrnadroparnir ekki sem skildi. Eyru eru oft skoluð í upphafi meðferðar og er tilfellinu svo fylgt eftir þar til eyrnabólgan er alveg horfin. Í sumum tilfellum þarf að skola eyru nokkrum sinnum. Til eru eyrnahreinsar sem varast ber að ofnota því slíkt getur hreinlega valdið eyrnabólgum. Einu sinni í viku er algjört hámark þó stöku sinnum þurfi að nota þá oftar í upphafi meðhöndlunar. Í slæmum tilfellum þar sem hundur er með mikla verki vegna eyrnabólgu er oftast byrjað á lyfjameðferð, en innan fárra daga er eyrnaskolunin framkvæmd þegar mestu eymslin eru horfin. Ef erfitt er að gefa hundinum lyf í eyru skal ávallt hafa samband við dýralækni því þá gæti verið að töflur hentuðu frekar þar sem mikilvægt er að hundurinn fái lyf tvisvar á dag og að kúrinn sé kláraður. Aldrei skal nota gömul lyf í fáa daga eða setja eyrnadropa stöku sinnum í eyru því slíkt veldur vanalega því að sýkillinn verður ónæmur fyrir sýklalyfjum eða að sveppavöxtur nær yfirhöndinni. Þau tilfelli getur verið mjög erfitt að meðhöndla. Ef um undirliggjandi ofnæmi er að ræða þarf að finna ofnæmisvaldinn. Hundurinn getur verið með ofnæmi fyrir fóðrinu sem hann étur, hálsólum eða bælinu sem hann liggur í, eða öðrum ofnæmisvöldum sem hann andar að sér úr loftinu. Hundar með fóðurofnæmi eru settir á ofnæmisfóður og þegar einkenni eru horfin eru týndir inn einn og einn fæðuflokkur til að sjá hvar ástæðan geti legið. Ef um eyrnamaur er að ræða eru gefin lyf sem eru annaðhvort í sprautuformi eða hellt á bak dýranna og húðin frásogar.

Til að koma í veg fyrir eyrnabólgur er gott að skoða eyrun reglulega. Ef eyrnamergur og óhreinindi eru til staðar en enginn roði er ágætt að þrífa eyrun. Ef enginn óhreinindi eru til staðar er lang best að eiga ekkert við eyrun. Eyrnabólgur valda mikilli vanlíðan hjá dýrinu þannig að eigandi skal ávallt vera vakandi fyrir eymslum í eyrum.

Ásdís Linda Sverrisdóttir, dýralæknir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *