Bólusetning sauðfjár – Þrígilt bóluefni

Á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum er framleitt blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, flosnýrnaveiki og bráðapest. Bóluefnið er blanda af sýklum og eiturefnum þeim sem valda lambablóðsótt, flosnýrnaveiki (garnapest) og bráðapest. Bóluefnið er ætlað til nota í fengnar ær. Þar sem sjúkdómahætta er mikil er mælt með því að ærnar séu sprautaðar mánuði áður en sauðburður hefst og aftur 10 -14 dögum síðar. Þar sem smitálag er lítið hafa menn þó reynslu af því að nægjanlegt er að sprauta eldri ær, það er ær sem hafa verið bólusettar margoft áður, aðeins einu sinni u.þb. hálfum mánuði fyrir burð. Það er góð regla að sjá til þess að allar ásetningsær verði sprautaðar tvísvar (grunnbólusettar) að minnsta kosti einu sinni á ævinni, annað hvort þegar þær eru settar á um haustið, eða næsta vor fyrir sauðburð.

Við bólusetninguna mynda ærnar mótefni gegn áðurnefndum sýklum og eituefnum þeirra og skila þeim til lambanna með broddmjólkinni. Uppsog mótefna frá görnum verður einkum fyrstu 36 klst eftir burð þannig að mikilvægt er að lömbin fái brodd sem fyrst eftir að þau koma í heiminn. Mótefnin veita vörn fyrstu vikurnar eftir burð og þá einkum gegn lambablóðsótt sem mest hætta er á að lömbin fái á þessum tíma. Bólusetningin veitir hins vegar takmarkaða vörn gegn garnapest sem hrjáir einkum eldri lömb og alls enga gegn bráðapest sem yngra fé er hætt við á haustin. Þar sem mikil brögð eru að því að bændur missi hálfstálpuð lömb úr garnapest þarf að bólusetja lömbin þegar þau koma af afrétt. Þá er mælt með því að sprauta tvísvar með 10-14 daga millibili. Bólusettum lömbum má slátra á venjulegum tíma, ekki er biðtími á bóluefninu.