Uppeldisaðstæður kálfsins – frá fóstri til mjólkurkúar

Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir

Ekkert er eins eðlilegt og að tengja saman dýravelferð og nýfætt ungviði. Á sama hátt kemur ekkert eins illa við okkur og slæm umhirða á því. Hin háleitu markmið dýraverndar eiga að vera ómeðvituð hjá þeim sem umgangast nýbura og uppeldi ungviðis. Hér á eftir fjöllum við um það hvernig ferlið frá fóstri að mjólkurkú á að vera, ekki síst með tilliti til dýraverndar og velferðar skepnunnar.

Síðasti meðgöngumánuðurSíðustu vikurnar á meðgöngu kýrinnar geta haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir kálfinn. Eðlilegur undirbúningur kýrinnar með tilliti til fóðrunar, eftirliti með júgurheilbrigði og félagslegra þarfa gripsins eiga að liggja til grundvallar. Fóðrunin á að vera byggð á holdafarsstigun sem framkvæmd er að minnsta kosti þrisvar á mjaltaskeiðinu. Fyrsta skoðun 7-14 dögum eftir burð. Önnur skoðun á tímabilinu 8-12 vikur eftir burð og að lokum 70-90 dögum fyrir burð. Einnig á fóðrunin að innihalda nægjanleg vítamín, stein- og snefilefni. Í því sambandi er rétt að benda á að 1. kálfskvígur sem eru á útbeit (hvort sem um er að ræða áborið tún eða útjörð) skortir verulega ýmiss nauðsynleg bætiefni t.d. selen. Okkar reynsla hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands er að inngjöf á forðastautum, svokölluðum “Alltrace” tryggja kvígunum mjög vel þessi bætiefni. Gefa þarf kvígunum inn að lágmarki 1-2 mán. fyrir burð en virkni stautanna vara í a.m.k. 6-7 mánuði. Eftirlit með hinni óbornu kú á að auka síðustu 2 vikur fyrir tal m.a vegna aukinnar hættu á júgurbólgu fyrir og við burð. Alvarlegar sýkingar (t.d. colisýkingar) geta haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir bæði móður og fóstur.

Einnig er talsvert um það að kýr/kvígur beri fyrir tímann og getur það bjargað bæði kálfi og móður ef eftirlit er aukið á þessum tíma. Síðast en ekki síst er rétt að benda á að félagsleg þörf geldkýrinnar eða 1. kálfs kvígunar er mikilvæg. Hér er átt við það að þær þurfa að vera komnar saman við mjólkurkúahópinn, komnar á básinn að lágmarki 3-4 vikum fyrir burð. Þetta er nauðsynlegt meðal annars m.t.t. goggunarraðar í hópnum. Almennt gildir að betra er að flytja nokkur dýr í einu heldur en að bæta einu og einu í hópinn. Einnig skiptir miklu máli að kýrin/kvígan sé komin á framleiðslufóður síðustu 2-3 vikur fyrir burð. Til að kýrin framleiði nægjanlegt magn af gæða mótefnum sem henta afkvæminu þarf hún að vera a.m.k. 3-4 vikur í hjörðinni fyrir burð.

BurðurAllar kýr, hvort sem þær eru í lausagöngufjósum eða hefðbundnum básafjósum, ættu að vera settar í burðarstíu a.m.k. einum sólarhring fyrir burð. Það er kúm eðlilegt að draga sig út úr hópnum við burðinn, þannig að setja þær sér í burðarstíu passar vel við náttúrulegt eðli þeirra. Þær eru jafnframt eirðarlausar og leggast og standa upp margsinnis í aðdraganda fæðingarinnar. Því þarf burðarstían að vera rúmgóð a.m.k. 3mx3m eða 9 fermetrar. Gólf á að vera mjúkt og skriðöruggt þannig að lítil hætta verði á að kýrin slasi sig eða meiðist við að standa upp og leggjast. Skilyrði er að hvert sem undirlagið er, þá er nauðsynlegt að nýstráður hálmur sé ofaná. Stían þarf jafnframt að vera auðveld í þrifum og sótthreinsuð á milli burða. Það er talið betra bæði fyrir kálf og móður að hann sé hjá móðurinni a.m.k. einn sólarhring. Kýrin örvast við að sleikja kálfinn, hildirnar losna frekar auk þess sem tengslin skapa meiri ró móðurinnar og hún étur betur. Kálfurinn örvast við að móðirin sleikir hann þurran þannig að hann kemst fyrr á fæturna og reynir fyrr að finna spenann. Einnig hefur það jákvæð áhrif á upptöku mótefna úr broddinum gegnum þarminn að kálfurinn sé hjá móður sinni. Það er þó ekki nægjanleg trygging að kálfurinn fái nægju sína af mótefnum að hann sé hjá móðurinni. Því ætti alltaf að gefa með túttuflösku 1-2 lítra af broddi á fyrstu 6 klukkutímunum eftir burð.

Kálfur frá burði til 8 vikna aldursÁður fyrr var mælt með einstaklingsstíum m.a. til að forðast óeðlilegt sog hjá kálfunum. Í dag má vel hugsa sér til að tryggja heilbrigði kálfsins að þeir séu í einstaklingsstíum (víða erlendis í einskonar kofum úti) í eina viku jafnvel í átta vikur, en þá er skilyrði að skilrúm á milli þeirra séu opin þannig að kálfarnir hafi félagslegt samneyti hver af öðrum. Mjög mikilvægt er, að ef um átta vikna tímabil er að ræða að stíurnar séu það stórar að eðlileg hreyfing sé möguleg. Vegna þeirra annmarka bæði félagslegra og hreyfingarlega sem einstaklingsstíurnar valda er í dag lagt meira upp úr hópstíum. Þær eiga að vera þurrar hreinlegar og með hvíldarplássi, þannig að annað hvort eru legubásar með mottum eða hálmdýna í hluta af stíunni eða í henni allri.Kálfarnir verða að hafa aðgang að hreinu vatni. Best er fyrir kálfa (og eldri nautgripi) að drekka vatn úr vatnskeri. Einnig á að bjóða kálfum gott hey strax á fyrstu aldursviku. Þá er nauðsynlegt til að nýta eðlilegan vaxtarhraða kálfsins að gefa honum kjarnfóður. Eðlilegast er að hafa frjálsan aðgang að þessu þrennu.Í náttúrulegu umhverfi fer kálfurinn ca. 8 sinnum undir kúna á sólarhring til að drekka á fyrstu aldursviku. Úr tíðninni dregur smátt og smátt þannig að þegar kálfurinn er orðinn ca. 6 mánaða sýgur hann einungis 2 sinnum þ.e. að morgni og að kveldi. Sogþörfin er mest fyrstu 4-5 vikurnar. Túttufötur eða kálfafóstrur fullnægja best sogþörf kálfsins. Eðlilegast væri að gefa yngstu kálfunum 3-4 sinnum á dag en kálfum sem eru orðnir 6-7 vikna kvölds og morgna. Þrif á stíum og sérstaklega mjólkurílátum, drykkjarfötum, túttum og slöngum er gríðarlega mikilvægt og má aldrei vanrækja. Þá er mjög mikilvægt að heilbrigðiseftirlit með kálfunum sé gott til að greina fyrstu einkenni skitu, liðabólgu, lungnabólgu osfr. Í hópstíum er nauðsynlegt að hafa kálfa á svipuðu reki m.a. vegna mótefnastöðu, þroska við át á heyi, kjarnfóðri og mjólk sérstaklega ef gefið er úr sameiginlegri túttufötu. Þess vegna verður fjöldi í hverri stíu að taka mið af aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.

Frá 8 vikna aldrinumÞær aðstæður sem við eigum að bjóða kálfunum upp á gilda jafnt um nokkurra mánaða kálfa sem og eins og hálfs árs kvígur. Ekki á að binda ungdýr til lengri tíma. Hópstíur þar sem gripirnir geta hreyft sig frjálsir með passandi fjölda miðað við stærð (ca.1.5 fermeter fyrir 60 kg kálf og 4-5 fermetrar fyrir 400 kg kvígu) Stærð stíanna fer einnig eftir hvernig fóðrað er þ.e. fjölda átplássa. Í stíunum á að vera annað hvort hvíldarpláss með hálmdýnu eða legubásar með gúmmídýnu af réttri lengd og breidd.Fóðrunin á að vera fjölbreytt. Gott hey sem undirstaða, kjarnfóður og bætiefni eftir þörfum á hverju aldursskeiði. Sjálfsagt mál á að vera að gefa öllum gripum ormalyf a.m.k. einu sinni á ári og oftar ef ormasmit er mikið og beitarstjórnum getur ekki takmarkað smitið. Sömu lögmál gilda hér og um kýrnar við flokkun á gripum og færslu milli stía að betra er að færa nokkra gripi í einu og þá sjaldnar en vera stöðugt að færa einn og einn grip. Það minnkar stress, félagslegar ógnanir og veldur minnstri truflun á goggunarröðinni. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa ekki of marga gripi í hverri stíu.

SamantektÍ kringum burðinn þarf eftirlit að vera aukið. Hluti af kálfadauða er vegna þess að kvígurnar eru teknar of seint inn í kúahópinn og eftirlit er ekki nægjanlegt. Hreinlæti í burðarstíum og við fóðrun á smákálfum er gríðarlega mikilvægt og má víðast hvar bæta. Við nýframkvæmdir og endurbætur á gripahúsum á að hugsa fyrst og fremst um að skapa dýrunum umhverfi miðað við atferli þeirra og taka þar mið af náttúrulegum aðstæðum. Þannig tryggjum við velferð þeirra best.