Um fóðrun katta

Fóðrun á fullvöxnum köttum

Meðalþyngd á fullvöxnum ketti er 3-5 kg. Kettir eru ólikir hundum að því leyti að þeir éta margar en litlar máltíðir á degi hverjum. Það er í góðu lagi að láta fóður standa hjá köttum vegna þess að þeir eru í eðli sínu “nartarar”. Þeir éta aldrei yfir sig og eru sífellt tilbúnir að fá sér einn og einn bita, þannig að gott er að gefa litla skammta af fóðri tvisvar til þrísvar á dag. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að vera ekki að gefa þeim of orkuríkt fóður miðað við holdafar og alls ekki að koma þeim upp á matvendni. Matvendni þróast oft sökum þess að fólk heldur að kötturinn fái ekki nóg að éta af því að hann étur svo litla skammta í einu, en það er í kattarins eðli að taka aðeins einn og einn bita og hverfa síðan frá matarskálinni. Þegar kettir mjálma upp við fætur eiganda síns að lokinni þeirri athöfn er ekki að þeir séu óánægðir með það sem á boðstólum var heldur er það athyglissýki og þakkargjörð áður en þeir leggjast í einhvern stólinn eða sófann og sofna. Þeir kettir sem fóðraðir eru eingöngu á matarafgöngum lenda því miður oft í því að fá ekki nægjanlegt eða rétt magn af stein- snefilefnum og vítamínum þannig að stundum líta þeir illa út eða fá ýmsa hörgulsjúkdóma. Í tilbúna fóðrinu fyrir þá eru öll nauðsynleg næringarefni í réttum hlurföllum þannig að ekki ber á vandamálum. Rétt er þó að ítreka enn og aftur að fólk láti ekki blekkjast af hegðun katta gagnvart matarskálinni og álykti sem svo að þeir séu ekki ánægðir með matinn og að “dekrið” hefjist. Í dag er matvendni að verða talsvert vandamál hjá köttum og í kjölfarið efnaskiptasjúkdómar s.s. sykursýki, offita og fl. sökum þess að fæðusamsetningin er ekki rétt.

Kettlingafullar læður og mjólkandi læður
Á þessu tímabili þurfa læður á mikilli orku að halda. Á síðustu þremur vikum meðgöngu þurfa læðurnar aukna orku til vaxtar fóstursins og upphaf mjólkumyndunar. Þegar got hefur átt sér stað er veruleg þörf fyrir orkumikið fóður sem inniheldur öll stein- snefilefni og vítamín. Orkuþörfin er u.þ.b. 3-4 sinnum meiri en til venjulegs viðhalds. Þess vegna er nauðsynlegt að velja rétt samsett fóður og gefa læðunni oft á dag. Einnig er mikilvægt að nægilegt framboð sé af góðu og hreinu vatni.

Fóðrun kettlinga
Við fæðingu vegur kettlingur 80-140gr. Fyrstu fjórar vikurnar þroskast hann einungis á móðurmjólkinni. Þegar hann hefur náð þeim aldri hefur þyngd hans þrefaldast. Frá 4. vikna aldrinum þarf að byrja að gefa kettlingunum fóður þannig að þeir venjist smátt og smátt frá móður. Orkuinnihald þessa fóðurs þarf að vera svipað og í móðurmjólkinni en það er 3-4 sinnum hærra en fullvaxinn köttur þarf á að halda til viðhalds. Ekki síður þarf þetta fóður að vera auðmeltanlegt þannig að ekki komi til meltingatruflana og veikleika í kettlingunum. Yfirleitt leyfir læðan kettlingunum að vera á spena til 7-8 vikna aldurs, en þá þarf annað fóður þeirra að fullnægja 80-90 % af orkuþörf þeirra. þ. a. l. er mjög mikilvægt að þeir hafi aðgengi að góðu og orkufíku fóðri fyrstu mánuðina.