Um fóðrun hunda

Fóðrun á fullvöxnum hundum

Fullvaxna hunda á að fóðra einu sinni á dag og þá helst að morgni. Ef gefið er á kvöldin þá þurfa þeir frekar að míga og hafa hægðir á nóttunni sem er heldur hvimleitt fyrir eigandann. Það er þó ekki þar með sagt að ekki megi gefa dýri oftar á dag ef fólk vill, en því miður hafa margir vanið sig á að gefa sínum gæludýrum þegar þeir fá sér sjálfir að borða en það er ekki alltaf gott vegna þess að matmálstíðir okkar mannanna eru allt of óreglulegar nú á tímum. Dýrin þurfa á reglulegum matmálstíðum að halda, það eykur öryggistilfinningu og festir í sessi stöðu dýrsins á metorðastiganum innan fjölskyldunnar. Ef um vandamál er að ræða svo sem léleg matarlyst sökum veikinda eða elli þá er nauðsynlegt að hliðra til með fóðrunartíma og gefa minna og oftar. Hundar sem eru í fullri vinnu s.s. smalahundar, varðhundar, veiðihundar og fl, ættu að fá að éta tvisvar á dag til þess að orkuþörf þeirra sé fullnægt. Svo er einnig með tíkur í lok meðgöngu og tíkur sem eru með hvolpa á spena. Stórum hundategundum er mælt með því að gefa tvísvar á dag til þess að minnka líkurnar á magasnúningi.

Erfitt er að fastsetja nákvæmlega hvað hver og einn hundur þarf að éta daglega en það er mjög breytilegt eftir því hversu mikið hann hreyfir sig og einnig af hvaða stofni og kyni hann er. Hver og einn verður að meta ástand síns hundsins eftir holdafari, útliti, einkennum og atferli og fóðra í samræmi við það.

Hvolpar og hundar í vexti
Um 4. vikna aldur fara hvolpar að skoða umhverfi sitt og hreyfa sig mikið. Á þessu aldursskeiði er nauðsynlegt að hefja fóðrun á þeim með móðurmjólkinni og þurfa þeir orkuríkt fóður. Mikilvægt er að það fóður sem þeir fá á þessu aldri sé hentugt þ.e.a.s. tiltölulega mjúkt og blautt þannig að þeir vilji éta það. Það þarf líka að vera bragðgott og auðmeltanlegt þannig að þeir dafni og vaxi eins og vera ber.Þurrfóður getur þurft að bleyta upp með vatni eða mjólk þannig að hvolpar éti það.Hvolpar sem vandir hafa verið undan móður þurfa u.þ.b. 2-3 sinnum meiri orku miðað við þyngd en fullvaxinn hundur og til að byrja með skal gefa þeim 4-6 sinnum á dag. Gjöfum fækkar eftir því sem þeir stækka. Þegar þeir hafa náð helmingi af kjörþyngd sinni sem fullvaxnir hundar eiga gjafir að vera komnar niður í tvær á dag.Minni hundategundir ná fullum vexti við 9-12 mánaða aldurinn en stærri hundakyn eru ekki fullvaxta fyrr en 18-24 mánaða gamlir.

Hvolpafullar tíkur
Jafnt og með kettlingafullar læður þá þurfa hvolpafullar tíkur á síðustu vikum meðgöngu orkuríkara fóður en til viðhalds.Oftast er ekki hægt að átta sig á því hversu mörg afkvæmi koma til með að fæðast þannig að alltaf verður að búast við hámarksfjölda afkvæma við hvert got. Þetta þýðir að við verðum að gefa 2-4 sinnum meira orkuinnihald í fóðri síðustu tvær vikur meðgöngu og 4-6 vikur eftir got til þess að móðirin haldi heilsu sinni og holdum og getu til fæðingar, mjólkurmyndunar og framfærslu hvolpanna.

Eyrnabólga í hundum

Eyrnabólga er ein af algengustu ástæðum þessa að hundar þurfa aðstoð dýrlæknis. Hafi hundurinn einu sinni fengið eyrnabólgu er ekki ólíklegt að hann fái hana aftur.

Eyrnalag hundsins er öðruvísi en hjá manninum. Eyrnagönginn stefna lóðrétt niður 3-5 cm og beygja svo snögglega um 90° þar sem hljóðhimnan liggur. Vegna legu eyrnaganganna loftar ekki nógu vel inn í eyrun og myndast þá hiti og raki sem skapar kjöraðstæður fyrir bakteríur og sveppi til að fjölga sér. Hundar með síð eyru eru sérlega gjarnir á að fá eyrnabólgur. Gæta skal þess að þurrka eyru á þeim hundum sem svamla mikið í vatni því annars eru mun meiri líkur á sjúkdóminum en ella. Hundar geta verið með löng hár í eyrum og er gott að klippa þau þannig að óhreinindi safnist ekki fyrir og valdi eyrnabólgum. Verra er að plokka hárin því þá bólgna hársekkir og sýking getur komist í þá.

Ástæður eyrnabólgu eru nokkrar; bakteríusýking, sveppasýking , aðskotahlutur, ofnæmi eða sníkjudýr eins og t.d eyrnamaur. Hundur með eyrnabólgu hristir hausinn og klæjar í eyrun, stoppar jafnvel við leik eða í göngu til að klóra sér og nudda sér utan í fasta hluti. Í einstaka tilfellum klóra þeir sér það mikið eða hrista hausinn svo skarpt að æð springur í eyranu og myndast þá blóðeyra þar sem blóð safnast í eyrnablöðkunni sem oftast þarf að tæma með með lítilli aðgerð.

Það verður oft vond lykt af hundum með eyrnabólgur. Eyrun verða rauð og sár geta myndast. Útferð úr eyra er gulbrúnn eða dökkbrúnn eyrnamergur. Í langvarandi eyrnabólgum verður húðin þykk. Ef eyrnabólga er það slæm að hljóðhimna springur og sýking kemst í innra eyra getur höfuðið farið að halla og hundurinn gengur jafnvel í hringi. Þá þarf að bregðast skjótt við. Sýkingar í innra eyra geta einnig komið innan frá t.d. í gegnum blóðrásina. Ef um ofnæmi er að ræða klæjar hundinn oft á fleiri stöðun t.d undir kvið og feldurinn verður mattur og flasa myndast.

Eyrnabólgur þarf að meðhöndla strax hvort sem um bráða eða endurtekna eyrnabólgu er að ræða. Ávall skal láta dýralækni skoða eyrun áður en meðhöndlun hefst og alls ekki nota gamla dropa frá fyrri meðhöndlunum þar sem önnur ástæða getur legið fyrir eyrnabólgunni í þetta skiptið. Dýralæknir þarf að meta hljóðhimnu og útiloka að hún sé sprungin því ekki má nota eyrnalyf beint í eyrað ef hún er sködduð. Eyrnabólgur eru meðhöndlaðar með fúkkalyfjum og stundum barksterum sem draga úr bólgum og kláða. Fúkkalyfin geta verið í töfluformi eða lausn (dropar) sem sett eru beint í eyrun. Mikilvægt er þá að eyru séu hrein annars virka eyrnadroparnir ekki sem skildi. Eyru eru oft skoluð í upphafi meðferðar og er tilfellinu svo fylgt eftir þar til eyrnabólgan er alveg horfin. Í sumum tilfellum þarf að skola eyru nokkrum sinnum. Til eru eyrnahreinsar sem varast ber að ofnota því slíkt getur hreinlega valdið eyrnabólgum. Einu sinni í viku er algjört hámark þó stöku sinnum þurfi að nota þá oftar í upphafi meðhöndlunar. Í slæmum tilfellum þar sem hundur er með mikla verki vegna eyrnabólgu er oftast byrjað á lyfjameðferð, en innan fárra daga er eyrnaskolunin framkvæmd þegar mestu eymslin eru horfin. Ef erfitt er að gefa hundinum lyf í eyru skal ávallt hafa samband við dýralækni því þá gæti verið að töflur hentuðu frekar þar sem mikilvægt er að hundurinn fái lyf tvisvar á dag og að kúrinn sé kláraður. Aldrei skal nota gömul lyf í fáa daga eða setja eyrnadropa stöku sinnum í eyru því slíkt veldur vanalega því að sýkillinn verður ónæmur fyrir sýklalyfjum eða að sveppavöxtur nær yfirhöndinni. Þau tilfelli getur verið mjög erfitt að meðhöndla. Ef um undirliggjandi ofnæmi er að ræða þarf að finna ofnæmisvaldinn. Hundurinn getur verið með ofnæmi fyrir fóðrinu sem hann étur, hálsólum eða bælinu sem hann liggur í, eða öðrum ofnæmisvöldum sem hann andar að sér úr loftinu. Hundar með fóðurofnæmi eru settir á ofnæmisfóður og þegar einkenni eru horfin eru týndir inn einn og einn fæðuflokkur til að sjá hvar ástæðan geti legið. Ef um eyrnamaur er að ræða eru gefin lyf sem eru annaðhvort í sprautuformi eða hellt á bak dýranna og húðin frásogar.

Til að koma í veg fyrir eyrnabólgur er gott að skoða eyrun reglulega. Ef eyrnamergur og óhreinindi eru til staðar en enginn roði er ágætt að þrífa eyrun. Ef enginn óhreinindi eru til staðar er lang best að eiga ekkert við eyrun. Eyrnabólgur valda mikilli vanlíðan hjá dýrinu þannig að eigandi skal ávallt vera vakandi fyrir eymslum í eyrum.

Ásdís Linda Sverrisdóttir, dýralæknir.

Got hjá tíkum

Oft hringja til okkar að Stuðlum áhyggjufullir hundaeigendur með tík komna að goti. Hér er ætlunin að fjalla lítillega um gang eðlilegs gots hjá tík og benda á hvenær skal haft samband við dýralækni.

Aðdragandi gots. Tíkur ganga með hvolpana í 63 daga eftir egglos. Frá þessu eru þó ýmis frávik, því oftast er ekki vitað hvenær egglos var og “meðgögnutíminn” getur þá verið frá 58 upp í 68 dagar frá pörun. Nokkrum dögum fyrir got sígur legið niður í kviðinn svo tíkin verður “perulaga” í vextinum. Skeiðin stækkar og mýkist og oft kemur mjólk í spenana. Gott er að fylgjast með líkamshita tíkanna þegar styttist í got, því sólarhring (12-36 klst) áður en gotið hefst lækkar líkamshitinn hjá tíkinni um allt að einni gráðu, t.d. úr 38,5°C niður fyrir 37,5°C. Þegar hitinn hækkar á ný styttist í fæðingu hvolpanna. Gott er að vera búinn að mæla tíkina áður til þess að vita hver hennar venjulegi líkamshiti er.

Misjafnt eftir tíkum hvort þær vilja hafa eigandann hjá sér meðan á goti stendur. Sumar sækja traust til eiganda sinna, á meðan aðrar stressast upp og “halda í sér” þangað til þær fá næði. Verður því hver og einn að “lesa” sína tík.

Got hefst með útvíkkun. Tíkin sýnir merki um vanlíðan, er eirðarlaus, andar þungt og er símígandi. Legið er nú farið að dragast saman og tíkin notar einnig kviðvöðvana til að færa hvolp í fæðingarveginn láta hann ýta á leghálsinn sem opnast smátt og smátt. Oft kemur nú þykkt slím frá tíkinni, skeiðin mýkist upp og stækkar. Útvíkkunin tekur oftast 6 til 12 klukkustundir þó ekki sé óeðlilegt að hún geti tekið frá tveimur tímumog upp í einn og hálfan sólarhring. Líkamshitinn lækkar fyrst eins og áður sagði og hækkar þegar útvíkkun er lokið.

Fæðing hvolpanna. Hvolparnir eru hver og einn í sínum poka/fylgju sem ég segi til einföldunar að gerð sé úr tveimur lögum; ytra og innra lagi. Þegar útvíkkun er lokið verða hríðirnir markvissari og það birtist blágrár belgur í fæðingaropinu (ytra lagið). Belgurinn getur sprungið í fæðingarveginum og þá er talað um að “vatnið fari”. Fósturvatnið er oftast lyktarlaust (ekki þvaglykt) og glært eða jafnvel með grænleitum blæ. Stuttu seinna birtist gráhvít “kúla” (innra lagið), með hvolpinum í og hvolpurinn fæðist. Þegar hvolpurinn er kominn, sleikir tíkinn hann, losar hann við fósturhimnuna (pokann) og bítur sundur naflastrenginn. Ef þarf má hjálpa henni við að opna pokann og slíta naflastrenginn. Nauðsynlegt er að hafa eitthvað tiltækt til að binda/klemma fyrir naflastrenginn ef ekki hættir að blæða úr honum svo hvolpnum blæði ekki út.

Það líður vanalega skammur tími frá því að hvolpur sést í fæðinarvegi og þar til hann er kominn í heiminn Tíminn á milli hvolpa er hins vegar misjafn en eðlilegt telst frá 5 mínútum og upp í 2 klukkustundir og getur jafnvel farið upp í 4 tíma undir lok fæðingar hjá tík sem er með marga hvolpa. Miðað er við að fæðing hvolpanna eigi ekki að taka meira en 12 klukkustundir. Lengri tími en það eykur hættuna á dauðfæddum hvolpum og legbólgu.

Þegar síðasti hvolpurinn er fæddur leggst tíkin vanalega fyrir, hvílir sig og leyfir hvolpunum að sjúga. Hríðirnar hætta þá vanalega þó samdrættir eftir fæðingu þekkist.

Fæðing fylgjanna. Oftast kemur fylgjan með hverjum hvolpi, en stundum koma nokkrar fylgjur saman. Tíkurnar éta oft fylgjurnar (og ættu að fá að éta a.m.k eitthvað af þeim), en telja ætti hvort þær séu ekki jafnmargar hvolpunum. Fylgjurnar ættu að vera komnar 8 klukkustundum eftir að síðasti hvolpinum kom, annars er hætta á legbólgu.

Hreinsun. Eðlilegt er að það sé útferð frá tíkinni eftir got. Fyrst er hún dökk, jafnvel grænleit og síðar verður hún blóðlitaðri. Hreinsunin tekur oftast tvær til þrjár vikur.

Hvenær á að hafa samband við dýralækni?

1. Ef það er enginn hvolpur kominn, líkamshitinn er hækkaður upp í eðlilegan hita, tíkin er með hríðir og

* það er dökk/svartgræn útferð úr skeið
* “vatnið fór” fyrir meira en 2 klst en ekkert gerist
* vægar hríðir af og til í 2-3 klst
* kröftugar, reglubundnar hríðir í meira en 20-30 mín

2. Ef hlé verður á gotinu.

* Sjá punkta hér að ofan
* Meira en 4 klukkustundir liðnar frá því síðasti hvolpur kom og það eru fleiri í tíkinni
* Tíkin er búin að vera að í meira en 12 tíma

3. Eftir gotið ef

* fylgjurnar komu ekki allar
* óeðlilegar blæðingar eru úr skeið
* ólykt er af útferð
* tíkin er slöpp

Lifrarbólga í hundum

Smitandi lifrarbólga í hundum.

Þessi smitsjúkdómur er alvarlegur veirusjúkdómur og er það adenóveira af gerð 1 sem veldur honum. Smitleiðir eru með saur, þvagi, munnvatni og blóði. Frá því að hundur smitast líða vanalega 4-7 sólarhringar þangað til sjúkdómurinn kemur í ljós og geta hundar verið smitberar allt upp í ár eftir að þeir veikjast. Veiran veldur mestum skemmdum í lifur en einnig í öðrum líffærum. Einkenni byrja með særindum í hálsi, hósta, háum hita, listarleysi og jafnvel lungnabólgu. Kviður verður viðkvæmur. Hundurinn fær bjúg í augun sem veldur því að augun verða blá og er það einkennandi fyrir þennan sjúkdóm. Þegar innri líffæri eins og lifur og nýru gefa sig geta komið krampar, þorsti, uppköst og niðurgangur. Hundar geta dáið skyndilega jafnvel áður en nokkur sérstök sjúkdómseinkenni koma í ljós. Einkennum þessa sjúkdóms getur svipað til smáveirusóttar (parvóveiru), en það er sjúkdómur sem veldur blóðugum niðurgangi en þessi sjúkdómur er ekki eins smitandi og smáveirusóttin.

Engin lyf eru til við smitandi lifrarbólgu en hundurinn fær þó stuðningsmeðhöndlun sem hjálpar honum að komast í gegnum sjúkdómsferlið. Bólusetningar geta dregið úr einkennum sjúkdómsins, en eins og staðan er í dag er ekki til bóluefni sem virkar beint gegn þessum sjúkdómi hér á landi heldur aðeins bóluefni af skyldri gerð þannig að mótstaða dýrsins verður einhver gegn þessum sjúkdómi.

Ef fólk verður vart við einkenni sjúkdómsins eða ef hundur deyr skyndilega er gott að hafa samband við dýralækni svo greina megi sjúkdóminn og kortleggja tíðni og útbreiðslu hans hér á landi.
Nokkur tilfelli greindust í sumar aðallega á höfuðborgarsvæðinu en örfá hér á Suðurlandi.

Dregið hefur aftur úr tíðni sjúkdómsins nú á haustdögum að öllum líkindum vegna veðráttu og minni samgangs á milli hunda.