Fóðurbætir fyrir hross frá Biofarm

Black Horse Premium – Fóðurbætir fyrir hross frá Biofarm

Við flytjum inn og seljum fæðubótarefni fyrir hross frá Biofarm í Finnlandi. Um er að ræða mismunandi samsetningar steinefna og vítamína sem koma að góðum notum við að meðhöndla og fyrirbyggja efnaskort af ýmsu tagi, eða til að byggja upp hross aftur eftir erfið veikindi. Einnig er nauðsýnlegt að huga sérstaklega að vítamínum og steinefnum við fóðrun keppnishrossa og kynbótahrossa, og í Black Horse Premium línunni frá Biofarm er oftast hægt að finna réttu fæðubótarefninn fyrir hvern hest. Biðjið endilega um ráðgjöf dýralækna okkar þegar þið litið við á Stuðlum. Vörurnar eru einnig seldar í hestavöruversluninni Baldvin og Þorvaldur á Selfossi.

Black Horse Premium Ferrimax
Inniheldur járn, kopar, sink, selen, B-, C- og E-vítamín. Fyrir hross í keppni, eftir sjúkdóm, við þreytu og vægt blóðleysi. Inniheldur 33 mg/kg Fe (járn) sem kelat (sérstaklega aðgengilegt fyrir likamann).

Black Horse Premium Biomet
Bíotín, sink og methionín fyrir betri hófvöxt, feld og húð.

Black Horse Premium Amino-Booster
Sneisafullt af amínosýrum, vítamínum og steinefnum. Fyrir reiðhesta í uppbyggingu (t.d. sundþjálfun) eða í harðri þjálfun/keppni. Stuðlar að góðri uppbyggingu vöðva og þols.

Black Horse Premium Cartivet
Inniheldur glúkósamín, chondroitínsúlfat, methíonín, C-, D- og E-vítamín. Fyrir hesta með spatt eða önnur liðavandamál, einnig fyrirbyggjandi fyrir hesta í harðri þjálfun.

Black Horse Premium Stressless
Innihledur m.a. Amínosýruna tryptofan. Getur haft slakandi áhfif á spennta og stressaða hesta.

Black Horse B-Sweet
B-vítamínblanda. Fyrirbyggjandi og styrkjandi við sérstakt álag eða eftir veikindi. Gott fyrir húð og feld, mælt með tveggja vikna kúr í kringum hárlos á vorin. Getur haft lystaukandi áhrif.

Milka E-vítamín
Selen og E-vitamín. Við selenskort (hvítvöðvaveiki). Gott fyrir ungviði og folaldsmerar og til að bæta lélegt fóður (eldra hey) og einnig fyrir hross sem fá eingöngu hey. Getur bætt frjósemi.

Black Horse Hörfæolía
Hörfræolía samanstendur úr línól- og línólensýru (Heil 60% omega3!). Styrkir húð, bætir ofnæmisvörn frumna, gott fyrir liði undir álagi. Fyrir hross með tilhneigingu til að fá múkk, holdhnjúska eða kláða. Gefur fallegan feld. Hægt að gefa stærri skammta til að drýgja kraftfóðurgjöf.

Um ormalyfjagjöf

Ráðlegging að kerfisbundinni ormalyfsgjöf

Folöld og folaldshryssur:

1. Snemma vors, ef hryssan hefur ekki fengið langvirkandi ormalyf um veturinn, er henni gefið ivermectinlyf (Eqvalan, Noromectin eða Bimectin). Einnig getur verið gott að gefa hryssunni in um leið og hún er köstuð, sérstaklega ef hún kastar seint og hefur verið lengi á sumarbeit. Þá getur Zerofen líka hentað.

2. Þegar folaldið er 4-6 vikna (t.d. þegar hryssan fer til eða kemur frá hesti): Eqvalan/Bimectin handa báðum. Í sparnaðarskyni er ásættanlegt að gefa hryssunni Zerofen í staðin en ekki borgar sig að spara þegar folaldið á í hlut.

3. Ef hryssan hefur kastað snemma getur verið gott að ormahreinsa aukalega seinni part sumars. Þá er gott að nota annað lyf en var notað fyrr um vorið.

4. Um haustið þegar folaldið er 3-4 mánaða gamalt er gott að gefa því inn Zerofen gegn fullorðnum spóluormum. Hryssunni er gefið með sérstaklega ef hún hefur gengið í þröngu hólfi allt sumarið og ekki fengið ormalyf.

5. Í byrjun vetrar (þegar tekið er undan): Bæði hryssunni og folaldinu gefið Equest Pramox eða dýralæknir fenginn til að sprauta undir húð.

Tryppi og fullorðin hross:

Algert lágmark er að ormahreinsa öll hross tvisvar á ári, t.d. áður en sleppt er á vorin og aftur þegar er skipt yfir í haustbeit eða hross tekin á hús. Tryppi fram að tamningaraldri þurfa tíðari ormalyfjagjafir en eldri hross.

1. Áður en sleppt er á sumarbeit eða hross færð í reiðhestahólf: Gjarnan Equest Pramox (virkar yfir sumarmánuðina), sérstaklega ef ekki hefur verið sprautað með Dectomax um veturinn. Annars ivermectinlyf (Eqvalan, Bimectin, Noromectin) eða Banminth eða Eqvalan Duo ef ekki var gefið bandormalyf um haustið. Það er gott að skipta milli lyfjaflokka milli ára til þess að sporna gegn myndun lyfjaónæmis. Mælt er með að gefa inn ormalyf þremur dögum áður en hrossunum er sleppt til þess að verja beitiland gegn mengun af lyfjaleifum.

2. Um mitt sumar: Zerofen. Sérstaklega mikilvægt fyrir tryppi eða hross sem eru í þröngu reiðhestahólfi allt sumarið. Má sleppa ef hrossið hefur fengið Equest um vorið.

3. Haust eða snemma vetrar: Equest Pramox, eða láta dýralækni sprauta með Dectomax undir húð. Annars ivermectinlyf. Zerofen virkar lítið sem ekkert á þessum árstíma.

Ormasýkingar í hrossum

Ormasýkingar í hrossum og varnir gegn þeim

Af hverju þarf að gefa ormalyf?

Það má segja að það eru iðraormar í öllum hrossum og í umhverfi þeirra. Ekki hefur reynst hægt að útrýma þessum sníkjudýrum, enda enginn tilgangur í því í sjálfu sér, því í hæfilegu magni ráða dýrin vel við þau. Maðurinn vill samt halda hrossum mörgum saman á takmörkuðum svæðum og þá myndast aðstæður þar sem iðraormar geta valdið töluverðum skaða og því æskilegt að hafa hemil á ormasmiti. Ormasýking getur í versta tilfelli valdið hrossum miklum þjáningum og jafnvel dauða og meðhöndla þarf ormasýkingar þegar þær skjóta upp kollinum. Meðhöndlun er tiltölulega einföld með því að gefa inn lyf sem drepur orma, en einnig er það skylda hrossaeigenda að fyrirbyggja nýtt smit með beitarstjórnun og kerfisbundinni ormalyfsgjöf.

Ormalyf eru dýr og þau eru ekki hættulaus inngjafar frekar enn önnur lyf. Flestar nýjar tegundir ormalyfja eru langvirkandi og brotna hægt niður í umhverfinu og geta haft áhrif á lífríkið. Einnig geta sníkjudýrin orðið ónæm fyrir lyfjunum með tímanum og lyfjaónæmi er orðið vandamál alls staðar í heiminum, líka á Íslandi. Það er því mikið atriði að ormalyfsgjafirnar séu kerfisbundnar og hnitmiðaðar og notaðar í samræmi við þarfir einstaklingsins ásamt góðri beitarstjórnun.

Hvenær þarf hrossið ormalyf? Nokkrir þættir skipta máli:

Aldur : Ungviðið er viðkvæmast fyrir ormasmiti og sjúkdómum tengdum því, en með aldrinum myndast nokkurt ónæmi gegn ormunum sem er þó einstaklingsbundið. Folöld og tryppi þurfa því ormalyf oftar en fullorðin hross.

Lífsskeið: Fylfullar hryssur skila frá sér miklu magni af ormaeggjum á vorin í kringum köstun og smita þannig folöldin sín strax frá fæðingu. Best er að ormahreinsa hryssurnar nokkrum vikum fyrir köstun og gefa folöldunum fyrstu meðhöndlun ekki seinna en 4-6 vikna gömul, enda eru þau sérstaklega viðkvæm á þessum aldri. Folaldshryssur eru oft áfram í tiltölulega þröngum hólfum hvort sem þeim er sleppt með graðhesti eða þær haldnar á húsi og því gott að gefa þeim og folöldunum inn á u.þ.b. 6 vikna fresti yfir sumarið.

Einstaklingsmunur: Það hefur sýnt sig að ekki þurfa allir hestar jafn margar ormalyfsgjafir. Fyrir flest reiðhross getur lágmarks ormahreinsun einu sinni eða tvisvar á ári verið fullnægjandi, en sumir einstaklingar geta verið talsvert ormasýktir þrátt fyrir að hafa fengið ormalyf reglulega. Ormalyf eru lyfseðilsskyld og í löndunum í kringum okkur er nýlega búið að herða reglur um afhendingu ormalyfja enn frekar, þannig að t.d. í Danmörku þarf að fara fram saursýnataka og ormaeggin talin áður en dýralæknir getur ávísað ormalyf. Það getur verið verulegur sparnaður í því að láta taka saursýni og meðhöndla bara þá einstaklinga sem þurfa á því að halda.

Árstími: Fjölgun og þroski sníkjudýranna er háð bæði líffræði þeirra og umhverfisþáttum eins og veðurfari og árstíma hvort sem er úti í haganum eða í innyflum hrossanna. Mikið magn ormaeggja lifa veturinn af í grassverðinum og þegar vorið kemur bíða þau eftir hrossunum og með árunum getur smitálagið í sumum högum orðið verulegt. Þetta á t.d. við um spóluormaegg í högum þar sem folöld ganga ár eftir ár. Það er því mikið atriði að gefa rétt ormalyf á réttum árstíma til þess að hafa áhrif á þá orma sem við á hverju sinni. Það á ekki síður við til þess að minnka smitálag í högum, hólfum og gerðum.

Hagi og hrossafjöldi: Ormarnir dreifa sér með því að egg þeirra koma úr hrossinu með saurnum, eggin klekjast í grasinu og lirfurnar eru svo étnar af öðrum hrossum. Þar af leiðir, að með því að minnka magn eggja í saur er hægt að hafa hemil á ormasmiti. Ef haginn er stór og langt á milli skítahrúga er minni þörf á ormalyfjum. Í þröngum haga kroppa hrossin oft nærri skítahrúgum og þar þarf að beita ormalyfjum í meira mæli. En fleri aðferðir til að minnka smit eru til: Sú venja að gefa ormalyf áður en hrossum er sleppt í haga á sumrin er góð og gild. Með því að draga slóða yfir beitarhólfin dreifist úr skítahrúgunum, þær þorna og lífsskilyrði ormanna versna til muna. Allra best er að geta hvílt mikið notuð beitarhólf í heilt ár því þá drepast lirfurnar og lífsferli ormanna stöðvast og smitálagið minnkar. Þá má til dæmis hafa naut eða sauðfé í hólfinu á meðan.

Aldurssamsetning í beitarhólfum: Það er góð regla að halda aldurshópunum sem mest aðskildum og ekki setja folaldsmerar og ung tryppi í þröng hólf með reiðhestum, enda fóðurþarfir einnig mismunandi milli þessara hópa. Eitt hross sem hýsir mikið af ormum getur smitað töluvert frá sér. Folaldshryssur geta þannig smitað folöldin sín og ekki er hægt að koma í veg fyrir það öðruvísi en með því meðhöndla bæði hryssurnar og folöldin eftir því sem við á. Vel að merkja gildir annað um spóluorma því þeir smitast ekki úr fullorðnum hrossum, heldur úr folöldunum frá árinu áður.

Ónæmi sníkjudýra gegn lyfjum

Eins og þekkist með sýklalyfjaónæmi þá vill bera á að sníkjudýr myndi ónæmi gegn þeim lyfjum sem eru í notkun hverju sinni. Það hafa ekki farið fram margar rannsóknir á því hér á landi en í löndunum í kringum okkur hefur þetta verið staðfest í þó nokkrum tilfellum. Til dæmis er tiltölulega algengt að spóluormar myndi ónæmi gegn þeim hópi lyfja sem kallast avermectínar (Eqvalan, Bimectin, Ivomec) og doramectin (sprautulyfin Ivomec og Dectomax). Það liggur grunur á að slík tilfelli hafi komið upp hér á landi. Önnur regla er að ónæmi er líklegast gegn algengasta og mest notaða lyfinu, sem hér á landi gæti verið fenbendazol (Zerofen og Panacur). Oft hefur verið brugðið á það ráð að skipta annað slagið um ormalyf til þess að venja ekki sníkjudýrin við eitthvert eitt lyf, en flest ormalyfin eru skyld, þannig að ekki er um marga möguleika að velja. Einnig er hægt að notfæra sér þekkt ónæmismynstur ákveðinna sníkjdýra þegar ormalyf er valið.

Hvaða ormalyf og hvenær?

Mikilvægt er að rétt tegund af ormalyfi sé notað gegn réttum sníkjdýrum á réttum tíma árs. Það hefur til dæmis lítið upp á sig að nota fenbendazol (Zerofen, Panacur) gegn stórum dreyrormum í folöldum þar sem þetta lyf virkar einungis á þá orma sem eru staddir í þörmunum, en stórir dreyrormar valda ekki skaða þar heldur í æðaveggjum á ferð sinni um líkamann. Svipaða sögu er að segja um litla dreyrorma í hrossum á öllum aldri. Þeir valda helst skaða yfir vetrartímann þar sem að þeir koma sér fyrir í þarmaslímhúðinni og leggjast í dvala þangað til hlýnar í veðri. Algengustu einkennin eru hrossasótt, niðurgangur og langvarandi þarmabólgur sem valda meðal annars blóðleysi, vanþrifum og máttleysi. Þau lyf sem virka best á dreyrorma í dvala eru langvirkandi og dreifast um öll líffæri, eins og doramectin (sprautulyfið Dectomax) og moxidectin (Cydectin). Aftur á móti er gamla góða fenbendazolið öruggast gegn spóluormum í folöldum.

Bandormar geta líka valdið hrossasóttareinkennum en það þarf að nota sérstakt lyf gegn þeim: Praziquantel eða tvöfaldan skammt af pyrantel. Í dag fást til dæmis ivermectin eða moxidectin saman í blöndu með bandormalyfi (Eqvalan Duo, Cydectin comp.). Bandormar eru líka hægvaxta þannig að ekki er ástæða til þess að nota lyf gegn þeim nema einu sinni á ári, annað hvort seint að hausti eða helst að vori áður en sleppt er. Ekki er ástæða að meðhöndla folöld yngri en 3-4 mánaða gegn bandormum.

Algengustu ormalyfin á markaði á Íslandi:

Fenbendazol (Zerofen og Panacur). Þetta er tiltölulega ódýrt ormalyf þegar það er keypt í magnpakkningum. Það frásogast lítið sem ekkert úr þörmum og virkar þar af leiðandi einungis á fullvaxta þráðorma og lirfur þeirra á meðan þeir eru í meltingarveginum, en ekki á meðan lirfurnar eru á flakki um lifur og lungu og önnur líffæri líkamans. Fenbendazol virkar mjög vel á fullorðna spóluorma í meltingarveginum þannig að það hentar vel að gefa folöldum það lyf við 3-4 mánaða aldur þegar spóluormarnir eru búnir að þroskast og farið er að hausta. Litlir dreyrormar eru aftur á móti þekktir fyrir að mynda ónæmi gegn fenbendazoli. Lyfið má nota á fylfullar hryssur og ung folöld.

Pyrantel (Banminth). Pyrantel virkar aðallega í meltingarveginum eins og fenbendazol og er óhætt að nota það á fylfullar hryssur og ung folöld. Það er áhrifaríkt gegn spóluormum, litlum dreyrormum (þar með talið þeim sem eru orðnir ónæmir fyrir fenbendazoli), stórum dreyrormum og njálg. Auk þess er það talið virka gegn bandormi með því að gefa tvöfaldan skammt. Banminth er svipað að verði og ivermectin-lyfin og virkar álíka vel á litla dreyrorma. Spóluormar mynda sjaldnar ónæmi gegn pyrantel en gegn ivermectini. Banminth hentar þar með til dæmis ágætlega sem fyrsta ormalyf handa 4-6 vikna gömlum folöldum og mæðrum þeirra. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 kg líkamsþyngd.

Ivermectin (Ivomec, Eqvalan, Eqvalan Duo, Bimectin, Noramectin). Ivermectin og skyld lyf eru frekar langvirk og breiðvirk ormalyf sem eru mikið notuð í hrossum í dag. Ivermectin frásogast vel úr meltingarvegi og virkar þar af leiðandi einnig á lirfustig lítilla og stórra dreyrorma, þar með talið á þá sem eru orðnir ónæmir fyrir fenbendazoli. Sérstaklega kemur þetta sér vel gegn lirfum stórra dreyrorma (Strongylus vulgaris) sem bora sér leið í slagæðaveggjum og geta valdið blóðtappa og drepi í görnum. Merki um æðabólgur geta sést í folöldum strax að hausti og þá er skaðinn þegar skeður. Svokallaður folaldaormur (Strongyloides Westeri) smitar einnig folöldin strax frá fæðingu og veldur hugsanlega skaða, einkum á fyrstu mánuðum. Þess vegna er svo mikilvægt að folöld fái gott ormalyf þegar frá 4-6 vikna aldri, og hentar ivermectin t.d. vel í það. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 eða 700 kg líkamsþyngd.

Moxidectin (Cydectin, Cydectin comp.). Þetta er annarar kynslóðar ormalyf í sama lyfjaflokki og ivermectin og eitt það breiðvirkasta og langvirkasta á markaðnum í dag. Cydectin comp. er blanda af moxidectini og bandormalyfinu praziqvantel. Moxidectin frásogast hratt og vel úr meltingarveginum og virkar á ormalirfur í öllum líffærum. Það virkar vel á allar gerðir þráðorma. Sérstaklega virkar það vel á dvalarstig lítilla dreyrorma sem hafa komið sér fyrir í slímhúð þarmaveggja og eru gjarnan að valda niðurgangi og vanþrifum í hrossum á öllum aldri. Þessi eiginleiki lyfsins liggur í langvirkni þess. Þegar hross hefur verið meðhöndlað með því, birtast egg lítilla dreyrorma ekki aftur í saur næstu þrjá mánuðina. Lyfið hentar til dæmis vel áður en hrossum er sleppt á vorin. Ekki er þá þörf á að meðhöndla aftur fyrr en seinni part sumars. Mælt er sérstaklega með Cydectin comp. handa hrossum sem hafa fengið hrossasótt eða niðurgang, því litlir dreyrormar geta verið erfiðir viðureignar með öðrum lyfjum auk þess sem bandormar liggja einnig undir grun þegar þessi einkenni gera vart við sig. Ekki má gefa moxidectin folöldum yngri en 6 mánaða. Áhrif á fóstur hafa ekki verið rannsökuð, en lyfið hefur verið notað í fylfullar hryssur án þess að aukaverkanir hafi komið í ljós. Varast ber að ofskammta lyfið. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 kg líkamsþyngd.

Praziquantel (Droncit, Cydectin comp., Eqvalan Duo). Praziquantel er lyf gegn bandormum og er hægt að fá eitt og sér (Droncit) eða í blöndum með lyfjum gegn þráðormum (Cydectin comp. og Eqvalan Duo). Bandormar valda ekki alltaf miklum skaða, en þeir bíta sig fasta í þarmavegginn í kringum botnlangaopið og erta slímhúðina. Einkenni geta verið endurtekin væg hrossasótt (krampakveisa) og vanþrif í hrossum á öllum aldri. Bandormar eru hægvaxta og nægir að meðhöndla gegn þeim einu sinni á ári, eða bara ef einkenna verður vart. Ekki er ástæða til þess að meðhöndla folöld með bandormalyfi fyrr en í fyrsta lagi að hausti til.

Doramectin (Dectomax). Þetta er lyfið sem flestir dýralæknar sprauta undir húð. Það er mjög svipað lyf og moxidectin, langvirkt og breiðvirkt gegn öllum tegundum þráðorma. Það hefur meira að segja einhver áhrif á lús í hrossum, en þar sem naglúsin sýgur ekki blóð vill vera erfitt að tryggja að allar lýsnar drepist. Því er mælt með að einnig nota lúsaskol ef hrossið er þegar farið að nudda sér. Doramectin hefur reynst afar vel í hrossum þar sem það ertir mun minna en Ivomec-sprautulyfið sem við notuðum mikið áður. Á þeim fjórum árum sem við höfum notað doramectin höfum við ekki orðið vör við að hross bólgni upp á stungustað. Ekki hefur orðið vart við aukaverkanir í folöldum, en við mælum ekki með að láta sprauta folöld yngri en fjögurra mánaða.

Tannhirða hrossa

Tennur og vandamál tengd þeim í hrossum

Eftirlit með tönnum hrossa og aðgerðir gegn vandamálum sem upp kunna að koma í munni hrossa skipa stóran sess í heilbrigðiseftirliti og lækningum þeirra. Segja má að tannvandamál hjá hrossum séu þekkt frá örófi alda, enda hesturinn í árþúsundir þróað tennur sínar í þá veru að bíta gras með framtönnunum og mala það síðan með jöxlunum.

Hrosstennur eru sérlega slitþolnar og óreglulegur slitflötur jaxlanna er vel til þess fallinn að mala fóðrið smærra sem er upphafið á meltingarferlinu í líkamanum og eitt af því mikilvægasta til þess að hesturinn nýti fóður sitt vel. Brúkunarhross nútímans lifa við talsvert aðrar aðstæður en villtir forfeður þeirra þar sem þau neyta unnins eða tilbúins fóðurs í uppvexti og á húsi auk þess sem sett er upp í þau beisli vegna notkunar.

Hrossum er það eðlilegt að mynda litla hnoðra eða bagga úr fóðrinu sem tungan færir síðan nær kokinu milli þess sem þeir eru malaðir á milli tannanna. Þar sem þessir hnoðrar haldast saman getur neðri kjálkinn ýtt fóðrinu yfir slitfleti efri tannanna og þannig á sér stað jafnt og eðlilegt slit jaxlanna. Fíngerðara fóður eins og t.d. fóðurkögglar eða kornfóður valda því að hliðarhreyfingar kjálkanna verða minni og slitflötur tanna er ver nýttur. Fleiri ástæður liggja að baki minni kjálkahreyfingu og misslits á tönnum hjá hrossum eins og eymsli eða sár í munni út frá tannskiptingu, brotnar eða skemmdar tennur, sár í munnslímhúð og ýmislegt fleira. Misslit vegna minni kjálkahreyfinga valda því að tannbroddar og skarpar brúnir myndast á tönnum sem aftur valda áframhaldandi eymslum í kjafti. Þennan vítahring verður að rjúfa með því að lagfæra misslitið og fjarlægja tannbroddana.

Þegar hross eru á bilinu 2-5 ára skipta þau út mjólkurtönnum fyrir fullorðinstennur. Við tannskiptin getur komið fyrir að mjólkurtennurnar víkji ekki strax og getur því þurft að fjarlægja þær. Um 5 ára aldur eiga allar varanlegar tennur að vera komnar og tannskiptum lokið. Strax þá er nauðsynlegt að fjarlægja ójöfnur og brodda á tönnum. Reyndar á að skoða tennur á ungum tryppum strax í upphafi tamningar til þess að hindra vandamál sem geta skapast af tannbroddum og skoða árlega þaðan í frá hvort allt sé með felldu í kjafti.

Efitlit dýralækna með tönnum hrossa fer sífellt vaxandi og er það orðin föst venja hjá okkur að deyfa hross áður en einhverjar aðgerðir eru framkvæmdar í munnholi. Felst það fyrst og fremst í miklu meira öryggi fyrir hrossið sjálft og einnig dýralækninn auk þess sem vinnubrögð viðkomandi verða mun betri og markvissari. Við þetta eftirlit er athugað hvort klofnar eða brotnar tennur séu til staðar, hvort bólgur eða sár séu í munnslímhúð, tungu eða tannslíðrum og hvort vandamál hafi skapast vegna tannskipta.

Síðan eru tannbroddar og misslit lagfært með tannröspum og síðast en ekki síst athugað hvort svokallaðar úlftennur séu til staðar og þær þá í flestum tilfellum fjarlægðar. Úlftennur eru tennur sem finnast aðeins í sumum hrossum og eru þær þróunarleifar, rétt eins og svokölluð griffilbein á fótum. Þær eru staðsettar fyrir framan jaxlana ( yfirleitt í efri skolti ) í slímhúðinni eða undir henni. Snerting úlftanna við beislismél og erting slímhúðarinnar valda hrossum vanalega óþægindum og er því nauðsynlegt að fjarlægja þær með lítilli aðgerð.

Að lokum er rétt að benda hestamönnum á fáein atriði sem bent geta til vandamála í tönnum hrossa og skal skýrt tekið fram að þessi upptalning er alls ekki tæmandi;
– ef hestur fjarlægir grófari hluta fóðursins og skilur eftir,
– ef hross drekka minna getur verið um tannkul að ræða út frá tannskemmd,
– ef hálftuggið fóður er eftir í stalli,
– ef hross er mjög lengi að éta,
– ef hross hristir mikið hausinn eða skekkir sig í reið,
– ef blóð er í froðu eða á beislismélum.

Hrossin okkar þurfa ekki síður á tannhirðu að halda en við.

Páll Stefánsson, dýralæknir.