Bólusetning sauðfjár – Þrígilt bóluefni

Á Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum er framleitt blandað bóluefni gegn lambablóðsótt, flosnýrnaveiki og bráðapest. Bóluefnið er blanda af sýklum og eiturefnum þeim sem valda lambablóðsótt, flosnýrnaveiki (garnapest) og bráðapest. Bóluefnið er ætlað til nota í fengnar ær. Þar sem sjúkdómahætta er mikil er mælt með því að ærnar séu sprautaðar mánuði áður en sauðburður hefst og aftur 10 -14 dögum síðar. Þar sem smitálag er lítið hafa menn þó reynslu af því að nægjanlegt er að sprauta eldri ær, það er ær sem hafa verið bólusettar margoft áður, aðeins einu sinni u.þb. hálfum mánuði fyrir burð. Það er góð regla að sjá til þess að allar ásetningsær verði sprautaðar tvísvar (grunnbólusettar) að minnsta kosti einu sinni á ævinni, annað hvort þegar þær eru settar á um haustið, eða næsta vor fyrir sauðburð.

Við bólusetninguna mynda ærnar mótefni gegn áðurnefndum sýklum og eituefnum þeirra og skila þeim til lambanna með broddmjólkinni. Uppsog mótefna frá görnum verður einkum fyrstu 36 klst eftir burð þannig að mikilvægt er að lömbin fái brodd sem fyrst eftir að þau koma í heiminn. Mótefnin veita vörn fyrstu vikurnar eftir burð og þá einkum gegn lambablóðsótt sem mest hætta er á að lömbin fái á þessum tíma. Bólusetningin veitir hins vegar takmarkaða vörn gegn garnapest sem hrjáir einkum eldri lömb og alls enga gegn bráðapest sem yngra fé er hætt við á haustin. Þar sem mikil brögð eru að því að bændur missi hálfstálpuð lömb úr garnapest þarf að bólusetja lömbin þegar þau koma af afrétt. Þá er mælt með því að sprauta tvísvar með 10-14 daga millibili. Bólusettum lömbum má slátra á venjulegum tíma, ekki er biðtími á bóluefninu.

Uppeldisaðstæður kálfsins – frá fóstri til mjólkurkúar

Sigurður Ingi Jóhannsson, dýralæknir

Ekkert er eins eðlilegt og að tengja saman dýravelferð og nýfætt ungviði. Á sama hátt kemur ekkert eins illa við okkur og slæm umhirða á því. Hin háleitu markmið dýraverndar eiga að vera ómeðvituð hjá þeim sem umgangast nýbura og uppeldi ungviðis. Hér á eftir fjöllum við um það hvernig ferlið frá fóstri að mjólkurkú á að vera, ekki síst með tilliti til dýraverndar og velferðar skepnunnar.

Síðasti meðgöngumánuðurSíðustu vikurnar á meðgöngu kýrinnar geta haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir kálfinn. Eðlilegur undirbúningur kýrinnar með tilliti til fóðrunar, eftirliti með júgurheilbrigði og félagslegra þarfa gripsins eiga að liggja til grundvallar. Fóðrunin á að vera byggð á holdafarsstigun sem framkvæmd er að minnsta kosti þrisvar á mjaltaskeiðinu. Fyrsta skoðun 7-14 dögum eftir burð. Önnur skoðun á tímabilinu 8-12 vikur eftir burð og að lokum 70-90 dögum fyrir burð. Einnig á fóðrunin að innihalda nægjanleg vítamín, stein- og snefilefni. Í því sambandi er rétt að benda á að 1. kálfskvígur sem eru á útbeit (hvort sem um er að ræða áborið tún eða útjörð) skortir verulega ýmiss nauðsynleg bætiefni t.d. selen. Okkar reynsla hjá Dýralæknaþjónustu Suðurlands er að inngjöf á forðastautum, svokölluðum “Alltrace” tryggja kvígunum mjög vel þessi bætiefni. Gefa þarf kvígunum inn að lágmarki 1-2 mán. fyrir burð en virkni stautanna vara í a.m.k. 6-7 mánuði. Eftirlit með hinni óbornu kú á að auka síðustu 2 vikur fyrir tal m.a vegna aukinnar hættu á júgurbólgu fyrir og við burð. Alvarlegar sýkingar (t.d. colisýkingar) geta haft afdrífaríkar afleiðingar fyrir bæði móður og fóstur.

Einnig er talsvert um það að kýr/kvígur beri fyrir tímann og getur það bjargað bæði kálfi og móður ef eftirlit er aukið á þessum tíma. Síðast en ekki síst er rétt að benda á að félagsleg þörf geldkýrinnar eða 1. kálfs kvígunar er mikilvæg. Hér er átt við það að þær þurfa að vera komnar saman við mjólkurkúahópinn, komnar á básinn að lágmarki 3-4 vikum fyrir burð. Þetta er nauðsynlegt meðal annars m.t.t. goggunarraðar í hópnum. Almennt gildir að betra er að flytja nokkur dýr í einu heldur en að bæta einu og einu í hópinn. Einnig skiptir miklu máli að kýrin/kvígan sé komin á framleiðslufóður síðustu 2-3 vikur fyrir burð. Til að kýrin framleiði nægjanlegt magn af gæða mótefnum sem henta afkvæminu þarf hún að vera a.m.k. 3-4 vikur í hjörðinni fyrir burð.

BurðurAllar kýr, hvort sem þær eru í lausagöngufjósum eða hefðbundnum básafjósum, ættu að vera settar í burðarstíu a.m.k. einum sólarhring fyrir burð. Það er kúm eðlilegt að draga sig út úr hópnum við burðinn, þannig að setja þær sér í burðarstíu passar vel við náttúrulegt eðli þeirra. Þær eru jafnframt eirðarlausar og leggast og standa upp margsinnis í aðdraganda fæðingarinnar. Því þarf burðarstían að vera rúmgóð a.m.k. 3mx3m eða 9 fermetrar. Gólf á að vera mjúkt og skriðöruggt þannig að lítil hætta verði á að kýrin slasi sig eða meiðist við að standa upp og leggjast. Skilyrði er að hvert sem undirlagið er, þá er nauðsynlegt að nýstráður hálmur sé ofaná. Stían þarf jafnframt að vera auðveld í þrifum og sótthreinsuð á milli burða. Það er talið betra bæði fyrir kálf og móður að hann sé hjá móðurinni a.m.k. einn sólarhring. Kýrin örvast við að sleikja kálfinn, hildirnar losna frekar auk þess sem tengslin skapa meiri ró móðurinnar og hún étur betur. Kálfurinn örvast við að móðirin sleikir hann þurran þannig að hann kemst fyrr á fæturna og reynir fyrr að finna spenann. Einnig hefur það jákvæð áhrif á upptöku mótefna úr broddinum gegnum þarminn að kálfurinn sé hjá móður sinni. Það er þó ekki nægjanleg trygging að kálfurinn fái nægju sína af mótefnum að hann sé hjá móðurinni. Því ætti alltaf að gefa með túttuflösku 1-2 lítra af broddi á fyrstu 6 klukkutímunum eftir burð.

Kálfur frá burði til 8 vikna aldursÁður fyrr var mælt með einstaklingsstíum m.a. til að forðast óeðlilegt sog hjá kálfunum. Í dag má vel hugsa sér til að tryggja heilbrigði kálfsins að þeir séu í einstaklingsstíum (víða erlendis í einskonar kofum úti) í eina viku jafnvel í átta vikur, en þá er skilyrði að skilrúm á milli þeirra séu opin þannig að kálfarnir hafi félagslegt samneyti hver af öðrum. Mjög mikilvægt er, að ef um átta vikna tímabil er að ræða að stíurnar séu það stórar að eðlileg hreyfing sé möguleg. Vegna þeirra annmarka bæði félagslegra og hreyfingarlega sem einstaklingsstíurnar valda er í dag lagt meira upp úr hópstíum. Þær eiga að vera þurrar hreinlegar og með hvíldarplássi, þannig að annað hvort eru legubásar með mottum eða hálmdýna í hluta af stíunni eða í henni allri.Kálfarnir verða að hafa aðgang að hreinu vatni. Best er fyrir kálfa (og eldri nautgripi) að drekka vatn úr vatnskeri. Einnig á að bjóða kálfum gott hey strax á fyrstu aldursviku. Þá er nauðsynlegt til að nýta eðlilegan vaxtarhraða kálfsins að gefa honum kjarnfóður. Eðlilegast er að hafa frjálsan aðgang að þessu þrennu.Í náttúrulegu umhverfi fer kálfurinn ca. 8 sinnum undir kúna á sólarhring til að drekka á fyrstu aldursviku. Úr tíðninni dregur smátt og smátt þannig að þegar kálfurinn er orðinn ca. 6 mánaða sýgur hann einungis 2 sinnum þ.e. að morgni og að kveldi. Sogþörfin er mest fyrstu 4-5 vikurnar. Túttufötur eða kálfafóstrur fullnægja best sogþörf kálfsins. Eðlilegast væri að gefa yngstu kálfunum 3-4 sinnum á dag en kálfum sem eru orðnir 6-7 vikna kvölds og morgna. Þrif á stíum og sérstaklega mjólkurílátum, drykkjarfötum, túttum og slöngum er gríðarlega mikilvægt og má aldrei vanrækja. Þá er mjög mikilvægt að heilbrigðiseftirlit með kálfunum sé gott til að greina fyrstu einkenni skitu, liðabólgu, lungnabólgu osfr. Í hópstíum er nauðsynlegt að hafa kálfa á svipuðu reki m.a. vegna mótefnastöðu, þroska við át á heyi, kjarnfóðri og mjólk sérstaklega ef gefið er úr sameiginlegri túttufötu. Þess vegna verður fjöldi í hverri stíu að taka mið af aðstæðum á hverjum stað fyrir sig.

Frá 8 vikna aldrinumÞær aðstæður sem við eigum að bjóða kálfunum upp á gilda jafnt um nokkurra mánaða kálfa sem og eins og hálfs árs kvígur. Ekki á að binda ungdýr til lengri tíma. Hópstíur þar sem gripirnir geta hreyft sig frjálsir með passandi fjölda miðað við stærð (ca.1.5 fermeter fyrir 60 kg kálf og 4-5 fermetrar fyrir 400 kg kvígu) Stærð stíanna fer einnig eftir hvernig fóðrað er þ.e. fjölda átplássa. Í stíunum á að vera annað hvort hvíldarpláss með hálmdýnu eða legubásar með gúmmídýnu af réttri lengd og breidd.Fóðrunin á að vera fjölbreytt. Gott hey sem undirstaða, kjarnfóður og bætiefni eftir þörfum á hverju aldursskeiði. Sjálfsagt mál á að vera að gefa öllum gripum ormalyf a.m.k. einu sinni á ári og oftar ef ormasmit er mikið og beitarstjórnum getur ekki takmarkað smitið. Sömu lögmál gilda hér og um kýrnar við flokkun á gripum og færslu milli stía að betra er að færa nokkra gripi í einu og þá sjaldnar en vera stöðugt að færa einn og einn grip. Það minnkar stress, félagslegar ógnanir og veldur minnstri truflun á goggunarröðinni. Það er gríðarlega mikilvægt að hafa ekki of marga gripi í hverri stíu.

SamantektÍ kringum burðinn þarf eftirlit að vera aukið. Hluti af kálfadauða er vegna þess að kvígurnar eru teknar of seint inn í kúahópinn og eftirlit er ekki nægjanlegt. Hreinlæti í burðarstíum og við fóðrun á smákálfum er gríðarlega mikilvægt og má víðast hvar bæta. Við nýframkvæmdir og endurbætur á gripahúsum á að hugsa fyrst og fremst um að skapa dýrunum umhverfi miðað við atferli þeirra og taka þar mið af náttúrulegum aðstæðum. Þannig tryggjum við velferð þeirra best.

Fóðurbætir fyrir hross frá Biofarm

Black Horse Premium – Fóðurbætir fyrir hross frá Biofarm

Við flytjum inn og seljum fæðubótarefni fyrir hross frá Biofarm í Finnlandi. Um er að ræða mismunandi samsetningar steinefna og vítamína sem koma að góðum notum við að meðhöndla og fyrirbyggja efnaskort af ýmsu tagi, eða til að byggja upp hross aftur eftir erfið veikindi. Einnig er nauðsýnlegt að huga sérstaklega að vítamínum og steinefnum við fóðrun keppnishrossa og kynbótahrossa, og í Black Horse Premium línunni frá Biofarm er oftast hægt að finna réttu fæðubótarefninn fyrir hvern hest. Biðjið endilega um ráðgjöf dýralækna okkar þegar þið litið við á Stuðlum. Vörurnar eru einnig seldar í hestavöruversluninni Baldvin og Þorvaldur á Selfossi.

Black Horse Premium Ferrimax
Inniheldur járn, kopar, sink, selen, B-, C- og E-vítamín. Fyrir hross í keppni, eftir sjúkdóm, við þreytu og vægt blóðleysi. Inniheldur 33 mg/kg Fe (járn) sem kelat (sérstaklega aðgengilegt fyrir likamann).

Black Horse Premium Biomet
Bíotín, sink og methionín fyrir betri hófvöxt, feld og húð.

Black Horse Premium Amino-Booster
Sneisafullt af amínosýrum, vítamínum og steinefnum. Fyrir reiðhesta í uppbyggingu (t.d. sundþjálfun) eða í harðri þjálfun/keppni. Stuðlar að góðri uppbyggingu vöðva og þols.

Black Horse Premium Cartivet
Inniheldur glúkósamín, chondroitínsúlfat, methíonín, C-, D- og E-vítamín. Fyrir hesta með spatt eða önnur liðavandamál, einnig fyrirbyggjandi fyrir hesta í harðri þjálfun.

Black Horse Premium Stressless
Innihledur m.a. Amínosýruna tryptofan. Getur haft slakandi áhfif á spennta og stressaða hesta.

Black Horse B-Sweet
B-vítamínblanda. Fyrirbyggjandi og styrkjandi við sérstakt álag eða eftir veikindi. Gott fyrir húð og feld, mælt með tveggja vikna kúr í kringum hárlos á vorin. Getur haft lystaukandi áhrif.

Milka E-vítamín
Selen og E-vitamín. Við selenskort (hvítvöðvaveiki). Gott fyrir ungviði og folaldsmerar og til að bæta lélegt fóður (eldra hey) og einnig fyrir hross sem fá eingöngu hey. Getur bætt frjósemi.

Black Horse Hörfæolía
Hörfræolía samanstendur úr línól- og línólensýru (Heil 60% omega3!). Styrkir húð, bætir ofnæmisvörn frumna, gott fyrir liði undir álagi. Fyrir hross með tilhneigingu til að fá múkk, holdhnjúska eða kláða. Gefur fallegan feld. Hægt að gefa stærri skammta til að drýgja kraftfóðurgjöf.

Um ormalyfjagjöf

Ráðlegging að kerfisbundinni ormalyfsgjöf

Folöld og folaldshryssur:

1. Snemma vors, ef hryssan hefur ekki fengið langvirkandi ormalyf um veturinn, er henni gefið ivermectinlyf (Eqvalan, Noromectin eða Bimectin). Einnig getur verið gott að gefa hryssunni in um leið og hún er köstuð, sérstaklega ef hún kastar seint og hefur verið lengi á sumarbeit. Þá getur Zerofen líka hentað.

2. Þegar folaldið er 4-6 vikna (t.d. þegar hryssan fer til eða kemur frá hesti): Eqvalan/Bimectin handa báðum. Í sparnaðarskyni er ásættanlegt að gefa hryssunni Zerofen í staðin en ekki borgar sig að spara þegar folaldið á í hlut.

3. Ef hryssan hefur kastað snemma getur verið gott að ormahreinsa aukalega seinni part sumars. Þá er gott að nota annað lyf en var notað fyrr um vorið.

4. Um haustið þegar folaldið er 3-4 mánaða gamalt er gott að gefa því inn Zerofen gegn fullorðnum spóluormum. Hryssunni er gefið með sérstaklega ef hún hefur gengið í þröngu hólfi allt sumarið og ekki fengið ormalyf.

5. Í byrjun vetrar (þegar tekið er undan): Bæði hryssunni og folaldinu gefið Equest Pramox eða dýralæknir fenginn til að sprauta undir húð.

Tryppi og fullorðin hross:

Algert lágmark er að ormahreinsa öll hross tvisvar á ári, t.d. áður en sleppt er á vorin og aftur þegar er skipt yfir í haustbeit eða hross tekin á hús. Tryppi fram að tamningaraldri þurfa tíðari ormalyfjagjafir en eldri hross.

1. Áður en sleppt er á sumarbeit eða hross færð í reiðhestahólf: Gjarnan Equest Pramox (virkar yfir sumarmánuðina), sérstaklega ef ekki hefur verið sprautað með Dectomax um veturinn. Annars ivermectinlyf (Eqvalan, Bimectin, Noromectin) eða Banminth eða Eqvalan Duo ef ekki var gefið bandormalyf um haustið. Það er gott að skipta milli lyfjaflokka milli ára til þess að sporna gegn myndun lyfjaónæmis. Mælt er með að gefa inn ormalyf þremur dögum áður en hrossunum er sleppt til þess að verja beitiland gegn mengun af lyfjaleifum.

2. Um mitt sumar: Zerofen. Sérstaklega mikilvægt fyrir tryppi eða hross sem eru í þröngu reiðhestahólfi allt sumarið. Má sleppa ef hrossið hefur fengið Equest um vorið.

3. Haust eða snemma vetrar: Equest Pramox, eða láta dýralækni sprauta með Dectomax undir húð. Annars ivermectinlyf. Zerofen virkar lítið sem ekkert á þessum árstíma.

Ormasýkingar í hrossum

Ormasýkingar í hrossum og varnir gegn þeim

Af hverju þarf að gefa ormalyf?

Það má segja að það eru iðraormar í öllum hrossum og í umhverfi þeirra. Ekki hefur reynst hægt að útrýma þessum sníkjudýrum, enda enginn tilgangur í því í sjálfu sér, því í hæfilegu magni ráða dýrin vel við þau. Maðurinn vill samt halda hrossum mörgum saman á takmörkuðum svæðum og þá myndast aðstæður þar sem iðraormar geta valdið töluverðum skaða og því æskilegt að hafa hemil á ormasmiti. Ormasýking getur í versta tilfelli valdið hrossum miklum þjáningum og jafnvel dauða og meðhöndla þarf ormasýkingar þegar þær skjóta upp kollinum. Meðhöndlun er tiltölulega einföld með því að gefa inn lyf sem drepur orma, en einnig er það skylda hrossaeigenda að fyrirbyggja nýtt smit með beitarstjórnun og kerfisbundinni ormalyfsgjöf.

Ormalyf eru dýr og þau eru ekki hættulaus inngjafar frekar enn önnur lyf. Flestar nýjar tegundir ormalyfja eru langvirkandi og brotna hægt niður í umhverfinu og geta haft áhrif á lífríkið. Einnig geta sníkjudýrin orðið ónæm fyrir lyfjunum með tímanum og lyfjaónæmi er orðið vandamál alls staðar í heiminum, líka á Íslandi. Það er því mikið atriði að ormalyfsgjafirnar séu kerfisbundnar og hnitmiðaðar og notaðar í samræmi við þarfir einstaklingsins ásamt góðri beitarstjórnun.

Hvenær þarf hrossið ormalyf? Nokkrir þættir skipta máli:

Aldur : Ungviðið er viðkvæmast fyrir ormasmiti og sjúkdómum tengdum því, en með aldrinum myndast nokkurt ónæmi gegn ormunum sem er þó einstaklingsbundið. Folöld og tryppi þurfa því ormalyf oftar en fullorðin hross.

Lífsskeið: Fylfullar hryssur skila frá sér miklu magni af ormaeggjum á vorin í kringum köstun og smita þannig folöldin sín strax frá fæðingu. Best er að ormahreinsa hryssurnar nokkrum vikum fyrir köstun og gefa folöldunum fyrstu meðhöndlun ekki seinna en 4-6 vikna gömul, enda eru þau sérstaklega viðkvæm á þessum aldri. Folaldshryssur eru oft áfram í tiltölulega þröngum hólfum hvort sem þeim er sleppt með graðhesti eða þær haldnar á húsi og því gott að gefa þeim og folöldunum inn á u.þ.b. 6 vikna fresti yfir sumarið.

Einstaklingsmunur: Það hefur sýnt sig að ekki þurfa allir hestar jafn margar ormalyfsgjafir. Fyrir flest reiðhross getur lágmarks ormahreinsun einu sinni eða tvisvar á ári verið fullnægjandi, en sumir einstaklingar geta verið talsvert ormasýktir þrátt fyrir að hafa fengið ormalyf reglulega. Ormalyf eru lyfseðilsskyld og í löndunum í kringum okkur er nýlega búið að herða reglur um afhendingu ormalyfja enn frekar, þannig að t.d. í Danmörku þarf að fara fram saursýnataka og ormaeggin talin áður en dýralæknir getur ávísað ormalyf. Það getur verið verulegur sparnaður í því að láta taka saursýni og meðhöndla bara þá einstaklinga sem þurfa á því að halda.

Árstími: Fjölgun og þroski sníkjudýranna er háð bæði líffræði þeirra og umhverfisþáttum eins og veðurfari og árstíma hvort sem er úti í haganum eða í innyflum hrossanna. Mikið magn ormaeggja lifa veturinn af í grassverðinum og þegar vorið kemur bíða þau eftir hrossunum og með árunum getur smitálagið í sumum högum orðið verulegt. Þetta á t.d. við um spóluormaegg í högum þar sem folöld ganga ár eftir ár. Það er því mikið atriði að gefa rétt ormalyf á réttum árstíma til þess að hafa áhrif á þá orma sem við á hverju sinni. Það á ekki síður við til þess að minnka smitálag í högum, hólfum og gerðum.

Hagi og hrossafjöldi: Ormarnir dreifa sér með því að egg þeirra koma úr hrossinu með saurnum, eggin klekjast í grasinu og lirfurnar eru svo étnar af öðrum hrossum. Þar af leiðir, að með því að minnka magn eggja í saur er hægt að hafa hemil á ormasmiti. Ef haginn er stór og langt á milli skítahrúga er minni þörf á ormalyfjum. Í þröngum haga kroppa hrossin oft nærri skítahrúgum og þar þarf að beita ormalyfjum í meira mæli. En fleri aðferðir til að minnka smit eru til: Sú venja að gefa ormalyf áður en hrossum er sleppt í haga á sumrin er góð og gild. Með því að draga slóða yfir beitarhólfin dreifist úr skítahrúgunum, þær þorna og lífsskilyrði ormanna versna til muna. Allra best er að geta hvílt mikið notuð beitarhólf í heilt ár því þá drepast lirfurnar og lífsferli ormanna stöðvast og smitálagið minnkar. Þá má til dæmis hafa naut eða sauðfé í hólfinu á meðan.

Aldurssamsetning í beitarhólfum: Það er góð regla að halda aldurshópunum sem mest aðskildum og ekki setja folaldsmerar og ung tryppi í þröng hólf með reiðhestum, enda fóðurþarfir einnig mismunandi milli þessara hópa. Eitt hross sem hýsir mikið af ormum getur smitað töluvert frá sér. Folaldshryssur geta þannig smitað folöldin sín og ekki er hægt að koma í veg fyrir það öðruvísi en með því meðhöndla bæði hryssurnar og folöldin eftir því sem við á. Vel að merkja gildir annað um spóluorma því þeir smitast ekki úr fullorðnum hrossum, heldur úr folöldunum frá árinu áður.

Ónæmi sníkjudýra gegn lyfjum

Eins og þekkist með sýklalyfjaónæmi þá vill bera á að sníkjudýr myndi ónæmi gegn þeim lyfjum sem eru í notkun hverju sinni. Það hafa ekki farið fram margar rannsóknir á því hér á landi en í löndunum í kringum okkur hefur þetta verið staðfest í þó nokkrum tilfellum. Til dæmis er tiltölulega algengt að spóluormar myndi ónæmi gegn þeim hópi lyfja sem kallast avermectínar (Eqvalan, Bimectin, Ivomec) og doramectin (sprautulyfin Ivomec og Dectomax). Það liggur grunur á að slík tilfelli hafi komið upp hér á landi. Önnur regla er að ónæmi er líklegast gegn algengasta og mest notaða lyfinu, sem hér á landi gæti verið fenbendazol (Zerofen og Panacur). Oft hefur verið brugðið á það ráð að skipta annað slagið um ormalyf til þess að venja ekki sníkjudýrin við eitthvert eitt lyf, en flest ormalyfin eru skyld, þannig að ekki er um marga möguleika að velja. Einnig er hægt að notfæra sér þekkt ónæmismynstur ákveðinna sníkjdýra þegar ormalyf er valið.

Hvaða ormalyf og hvenær?

Mikilvægt er að rétt tegund af ormalyfi sé notað gegn réttum sníkjdýrum á réttum tíma árs. Það hefur til dæmis lítið upp á sig að nota fenbendazol (Zerofen, Panacur) gegn stórum dreyrormum í folöldum þar sem þetta lyf virkar einungis á þá orma sem eru staddir í þörmunum, en stórir dreyrormar valda ekki skaða þar heldur í æðaveggjum á ferð sinni um líkamann. Svipaða sögu er að segja um litla dreyrorma í hrossum á öllum aldri. Þeir valda helst skaða yfir vetrartímann þar sem að þeir koma sér fyrir í þarmaslímhúðinni og leggjast í dvala þangað til hlýnar í veðri. Algengustu einkennin eru hrossasótt, niðurgangur og langvarandi þarmabólgur sem valda meðal annars blóðleysi, vanþrifum og máttleysi. Þau lyf sem virka best á dreyrorma í dvala eru langvirkandi og dreifast um öll líffæri, eins og doramectin (sprautulyfið Dectomax) og moxidectin (Cydectin). Aftur á móti er gamla góða fenbendazolið öruggast gegn spóluormum í folöldum.

Bandormar geta líka valdið hrossasóttareinkennum en það þarf að nota sérstakt lyf gegn þeim: Praziquantel eða tvöfaldan skammt af pyrantel. Í dag fást til dæmis ivermectin eða moxidectin saman í blöndu með bandormalyfi (Eqvalan Duo, Cydectin comp.). Bandormar eru líka hægvaxta þannig að ekki er ástæða til þess að nota lyf gegn þeim nema einu sinni á ári, annað hvort seint að hausti eða helst að vori áður en sleppt er. Ekki er ástæða að meðhöndla folöld yngri en 3-4 mánaða gegn bandormum.

Algengustu ormalyfin á markaði á Íslandi:

Fenbendazol (Zerofen og Panacur). Þetta er tiltölulega ódýrt ormalyf þegar það er keypt í magnpakkningum. Það frásogast lítið sem ekkert úr þörmum og virkar þar af leiðandi einungis á fullvaxta þráðorma og lirfur þeirra á meðan þeir eru í meltingarveginum, en ekki á meðan lirfurnar eru á flakki um lifur og lungu og önnur líffæri líkamans. Fenbendazol virkar mjög vel á fullorðna spóluorma í meltingarveginum þannig að það hentar vel að gefa folöldum það lyf við 3-4 mánaða aldur þegar spóluormarnir eru búnir að þroskast og farið er að hausta. Litlir dreyrormar eru aftur á móti þekktir fyrir að mynda ónæmi gegn fenbendazoli. Lyfið má nota á fylfullar hryssur og ung folöld.

Pyrantel (Banminth). Pyrantel virkar aðallega í meltingarveginum eins og fenbendazol og er óhætt að nota það á fylfullar hryssur og ung folöld. Það er áhrifaríkt gegn spóluormum, litlum dreyrormum (þar með talið þeim sem eru orðnir ónæmir fyrir fenbendazoli), stórum dreyrormum og njálg. Auk þess er það talið virka gegn bandormi með því að gefa tvöfaldan skammt. Banminth er svipað að verði og ivermectin-lyfin og virkar álíka vel á litla dreyrorma. Spóluormar mynda sjaldnar ónæmi gegn pyrantel en gegn ivermectini. Banminth hentar þar með til dæmis ágætlega sem fyrsta ormalyf handa 4-6 vikna gömlum folöldum og mæðrum þeirra. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 kg líkamsþyngd.

Ivermectin (Ivomec, Eqvalan, Eqvalan Duo, Bimectin, Noramectin). Ivermectin og skyld lyf eru frekar langvirk og breiðvirk ormalyf sem eru mikið notuð í hrossum í dag. Ivermectin frásogast vel úr meltingarvegi og virkar þar af leiðandi einnig á lirfustig lítilla og stórra dreyrorma, þar með talið á þá sem eru orðnir ónæmir fyrir fenbendazoli. Sérstaklega kemur þetta sér vel gegn lirfum stórra dreyrorma (Strongylus vulgaris) sem bora sér leið í slagæðaveggjum og geta valdið blóðtappa og drepi í görnum. Merki um æðabólgur geta sést í folöldum strax að hausti og þá er skaðinn þegar skeður. Svokallaður folaldaormur (Strongyloides Westeri) smitar einnig folöldin strax frá fæðingu og veldur hugsanlega skaða, einkum á fyrstu mánuðum. Þess vegna er svo mikilvægt að folöld fái gott ormalyf þegar frá 4-6 vikna aldri, og hentar ivermectin t.d. vel í það. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 eða 700 kg líkamsþyngd.

Moxidectin (Cydectin, Cydectin comp.). Þetta er annarar kynslóðar ormalyf í sama lyfjaflokki og ivermectin og eitt það breiðvirkasta og langvirkasta á markaðnum í dag. Cydectin comp. er blanda af moxidectini og bandormalyfinu praziqvantel. Moxidectin frásogast hratt og vel úr meltingarveginum og virkar á ormalirfur í öllum líffærum. Það virkar vel á allar gerðir þráðorma. Sérstaklega virkar það vel á dvalarstig lítilla dreyrorma sem hafa komið sér fyrir í slímhúð þarmaveggja og eru gjarnan að valda niðurgangi og vanþrifum í hrossum á öllum aldri. Þessi eiginleiki lyfsins liggur í langvirkni þess. Þegar hross hefur verið meðhöndlað með því, birtast egg lítilla dreyrorma ekki aftur í saur næstu þrjá mánuðina. Lyfið hentar til dæmis vel áður en hrossum er sleppt á vorin. Ekki er þá þörf á að meðhöndla aftur fyrr en seinni part sumars. Mælt er sérstaklega með Cydectin comp. handa hrossum sem hafa fengið hrossasótt eða niðurgang, því litlir dreyrormar geta verið erfiðir viðureignar með öðrum lyfjum auk þess sem bandormar liggja einnig undir grun þegar þessi einkenni gera vart við sig. Ekki má gefa moxidectin folöldum yngri en 6 mánaða. Áhrif á fóstur hafa ekki verið rannsökuð, en lyfið hefur verið notað í fylfullar hryssur án þess að aukaverkanir hafi komið í ljós. Varast ber að ofskammta lyfið. Lyfið er selt í dælum sem innihalda skammt fyrir 600 kg líkamsþyngd.

Praziquantel (Droncit, Cydectin comp., Eqvalan Duo). Praziquantel er lyf gegn bandormum og er hægt að fá eitt og sér (Droncit) eða í blöndum með lyfjum gegn þráðormum (Cydectin comp. og Eqvalan Duo). Bandormar valda ekki alltaf miklum skaða, en þeir bíta sig fasta í þarmavegginn í kringum botnlangaopið og erta slímhúðina. Einkenni geta verið endurtekin væg hrossasótt (krampakveisa) og vanþrif í hrossum á öllum aldri. Bandormar eru hægvaxta og nægir að meðhöndla gegn þeim einu sinni á ári, eða bara ef einkenna verður vart. Ekki er ástæða til þess að meðhöndla folöld með bandormalyfi fyrr en í fyrsta lagi að hausti til.

Doramectin (Dectomax). Þetta er lyfið sem flestir dýralæknar sprauta undir húð. Það er mjög svipað lyf og moxidectin, langvirkt og breiðvirkt gegn öllum tegundum þráðorma. Það hefur meira að segja einhver áhrif á lús í hrossum, en þar sem naglúsin sýgur ekki blóð vill vera erfitt að tryggja að allar lýsnar drepist. Því er mælt með að einnig nota lúsaskol ef hrossið er þegar farið að nudda sér. Doramectin hefur reynst afar vel í hrossum þar sem það ertir mun minna en Ivomec-sprautulyfið sem við notuðum mikið áður. Á þeim fjórum árum sem við höfum notað doramectin höfum við ekki orðið vör við að hross bólgni upp á stungustað. Ekki hefur orðið vart við aukaverkanir í folöldum, en við mælum ekki með að láta sprauta folöld yngri en fjögurra mánaða.

Tannhirða hrossa

Tennur og vandamál tengd þeim í hrossum

Eftirlit með tönnum hrossa og aðgerðir gegn vandamálum sem upp kunna að koma í munni hrossa skipa stóran sess í heilbrigðiseftirliti og lækningum þeirra. Segja má að tannvandamál hjá hrossum séu þekkt frá örófi alda, enda hesturinn í árþúsundir þróað tennur sínar í þá veru að bíta gras með framtönnunum og mala það síðan með jöxlunum.

Hrosstennur eru sérlega slitþolnar og óreglulegur slitflötur jaxlanna er vel til þess fallinn að mala fóðrið smærra sem er upphafið á meltingarferlinu í líkamanum og eitt af því mikilvægasta til þess að hesturinn nýti fóður sitt vel. Brúkunarhross nútímans lifa við talsvert aðrar aðstæður en villtir forfeður þeirra þar sem þau neyta unnins eða tilbúins fóðurs í uppvexti og á húsi auk þess sem sett er upp í þau beisli vegna notkunar.

Hrossum er það eðlilegt að mynda litla hnoðra eða bagga úr fóðrinu sem tungan færir síðan nær kokinu milli þess sem þeir eru malaðir á milli tannanna. Þar sem þessir hnoðrar haldast saman getur neðri kjálkinn ýtt fóðrinu yfir slitfleti efri tannanna og þannig á sér stað jafnt og eðlilegt slit jaxlanna. Fíngerðara fóður eins og t.d. fóðurkögglar eða kornfóður valda því að hliðarhreyfingar kjálkanna verða minni og slitflötur tanna er ver nýttur. Fleiri ástæður liggja að baki minni kjálkahreyfingu og misslits á tönnum hjá hrossum eins og eymsli eða sár í munni út frá tannskiptingu, brotnar eða skemmdar tennur, sár í munnslímhúð og ýmislegt fleira. Misslit vegna minni kjálkahreyfinga valda því að tannbroddar og skarpar brúnir myndast á tönnum sem aftur valda áframhaldandi eymslum í kjafti. Þennan vítahring verður að rjúfa með því að lagfæra misslitið og fjarlægja tannbroddana.

Þegar hross eru á bilinu 2-5 ára skipta þau út mjólkurtönnum fyrir fullorðinstennur. Við tannskiptin getur komið fyrir að mjólkurtennurnar víkji ekki strax og getur því þurft að fjarlægja þær. Um 5 ára aldur eiga allar varanlegar tennur að vera komnar og tannskiptum lokið. Strax þá er nauðsynlegt að fjarlægja ójöfnur og brodda á tönnum. Reyndar á að skoða tennur á ungum tryppum strax í upphafi tamningar til þess að hindra vandamál sem geta skapast af tannbroddum og skoða árlega þaðan í frá hvort allt sé með felldu í kjafti.

Efitlit dýralækna með tönnum hrossa fer sífellt vaxandi og er það orðin föst venja hjá okkur að deyfa hross áður en einhverjar aðgerðir eru framkvæmdar í munnholi. Felst það fyrst og fremst í miklu meira öryggi fyrir hrossið sjálft og einnig dýralækninn auk þess sem vinnubrögð viðkomandi verða mun betri og markvissari. Við þetta eftirlit er athugað hvort klofnar eða brotnar tennur séu til staðar, hvort bólgur eða sár séu í munnslímhúð, tungu eða tannslíðrum og hvort vandamál hafi skapast vegna tannskipta.

Síðan eru tannbroddar og misslit lagfært með tannröspum og síðast en ekki síst athugað hvort svokallaðar úlftennur séu til staðar og þær þá í flestum tilfellum fjarlægðar. Úlftennur eru tennur sem finnast aðeins í sumum hrossum og eru þær þróunarleifar, rétt eins og svokölluð griffilbein á fótum. Þær eru staðsettar fyrir framan jaxlana ( yfirleitt í efri skolti ) í slímhúðinni eða undir henni. Snerting úlftanna við beislismél og erting slímhúðarinnar valda hrossum vanalega óþægindum og er því nauðsynlegt að fjarlægja þær með lítilli aðgerð.

Að lokum er rétt að benda hestamönnum á fáein atriði sem bent geta til vandamála í tönnum hrossa og skal skýrt tekið fram að þessi upptalning er alls ekki tæmandi;
– ef hestur fjarlægir grófari hluta fóðursins og skilur eftir,
– ef hross drekka minna getur verið um tannkul að ræða út frá tannskemmd,
– ef hálftuggið fóður er eftir í stalli,
– ef hross er mjög lengi að éta,
– ef hross hristir mikið hausinn eða skekkir sig í reið,
– ef blóð er í froðu eða á beislismélum.

Hrossin okkar þurfa ekki síður á tannhirðu að halda en við.

Páll Stefánsson, dýralæknir.

Um fóðrun katta

Fóðrun á fullvöxnum köttum

Meðalþyngd á fullvöxnum ketti er 3-5 kg. Kettir eru ólikir hundum að því leyti að þeir éta margar en litlar máltíðir á degi hverjum. Það er í góðu lagi að láta fóður standa hjá köttum vegna þess að þeir eru í eðli sínu “nartarar”. Þeir éta aldrei yfir sig og eru sífellt tilbúnir að fá sér einn og einn bita, þannig að gott er að gefa litla skammta af fóðri tvisvar til þrísvar á dag. Nauðsynlegt er þó að hafa í huga að vera ekki að gefa þeim of orkuríkt fóður miðað við holdafar og alls ekki að koma þeim upp á matvendni. Matvendni þróast oft sökum þess að fólk heldur að kötturinn fái ekki nóg að éta af því að hann étur svo litla skammta í einu, en það er í kattarins eðli að taka aðeins einn og einn bita og hverfa síðan frá matarskálinni. Þegar kettir mjálma upp við fætur eiganda síns að lokinni þeirri athöfn er ekki að þeir séu óánægðir með það sem á boðstólum var heldur er það athyglissýki og þakkargjörð áður en þeir leggjast í einhvern stólinn eða sófann og sofna. Þeir kettir sem fóðraðir eru eingöngu á matarafgöngum lenda því miður oft í því að fá ekki nægjanlegt eða rétt magn af stein- snefilefnum og vítamínum þannig að stundum líta þeir illa út eða fá ýmsa hörgulsjúkdóma. Í tilbúna fóðrinu fyrir þá eru öll nauðsynleg næringarefni í réttum hlurföllum þannig að ekki ber á vandamálum. Rétt er þó að ítreka enn og aftur að fólk láti ekki blekkjast af hegðun katta gagnvart matarskálinni og álykti sem svo að þeir séu ekki ánægðir með matinn og að “dekrið” hefjist. Í dag er matvendni að verða talsvert vandamál hjá köttum og í kjölfarið efnaskiptasjúkdómar s.s. sykursýki, offita og fl. sökum þess að fæðusamsetningin er ekki rétt.

Kettlingafullar læður og mjólkandi læður
Á þessu tímabili þurfa læður á mikilli orku að halda. Á síðustu þremur vikum meðgöngu þurfa læðurnar aukna orku til vaxtar fóstursins og upphaf mjólkumyndunar. Þegar got hefur átt sér stað er veruleg þörf fyrir orkumikið fóður sem inniheldur öll stein- snefilefni og vítamín. Orkuþörfin er u.þ.b. 3-4 sinnum meiri en til venjulegs viðhalds. Þess vegna er nauðsynlegt að velja rétt samsett fóður og gefa læðunni oft á dag. Einnig er mikilvægt að nægilegt framboð sé af góðu og hreinu vatni.

Fóðrun kettlinga
Við fæðingu vegur kettlingur 80-140gr. Fyrstu fjórar vikurnar þroskast hann einungis á móðurmjólkinni. Þegar hann hefur náð þeim aldri hefur þyngd hans þrefaldast. Frá 4. vikna aldrinum þarf að byrja að gefa kettlingunum fóður þannig að þeir venjist smátt og smátt frá móður. Orkuinnihald þessa fóðurs þarf að vera svipað og í móðurmjólkinni en það er 3-4 sinnum hærra en fullvaxinn köttur þarf á að halda til viðhalds. Ekki síður þarf þetta fóður að vera auðmeltanlegt þannig að ekki komi til meltingatruflana og veikleika í kettlingunum. Yfirleitt leyfir læðan kettlingunum að vera á spena til 7-8 vikna aldurs, en þá þarf annað fóður þeirra að fullnægja 80-90 % af orkuþörf þeirra. þ. a. l. er mjög mikilvægt að þeir hafi aðgengi að góðu og orkufíku fóðri fyrstu mánuðina.

Um fóðrun hunda

Fóðrun á fullvöxnum hundum

Fullvaxna hunda á að fóðra einu sinni á dag og þá helst að morgni. Ef gefið er á kvöldin þá þurfa þeir frekar að míga og hafa hægðir á nóttunni sem er heldur hvimleitt fyrir eigandann. Það er þó ekki þar með sagt að ekki megi gefa dýri oftar á dag ef fólk vill, en því miður hafa margir vanið sig á að gefa sínum gæludýrum þegar þeir fá sér sjálfir að borða en það er ekki alltaf gott vegna þess að matmálstíðir okkar mannanna eru allt of óreglulegar nú á tímum. Dýrin þurfa á reglulegum matmálstíðum að halda, það eykur öryggistilfinningu og festir í sessi stöðu dýrsins á metorðastiganum innan fjölskyldunnar. Ef um vandamál er að ræða svo sem léleg matarlyst sökum veikinda eða elli þá er nauðsynlegt að hliðra til með fóðrunartíma og gefa minna og oftar. Hundar sem eru í fullri vinnu s.s. smalahundar, varðhundar, veiðihundar og fl, ættu að fá að éta tvisvar á dag til þess að orkuþörf þeirra sé fullnægt. Svo er einnig með tíkur í lok meðgöngu og tíkur sem eru með hvolpa á spena. Stórum hundategundum er mælt með því að gefa tvísvar á dag til þess að minnka líkurnar á magasnúningi.

Erfitt er að fastsetja nákvæmlega hvað hver og einn hundur þarf að éta daglega en það er mjög breytilegt eftir því hversu mikið hann hreyfir sig og einnig af hvaða stofni og kyni hann er. Hver og einn verður að meta ástand síns hundsins eftir holdafari, útliti, einkennum og atferli og fóðra í samræmi við það.

Hvolpar og hundar í vexti
Um 4. vikna aldur fara hvolpar að skoða umhverfi sitt og hreyfa sig mikið. Á þessu aldursskeiði er nauðsynlegt að hefja fóðrun á þeim með móðurmjólkinni og þurfa þeir orkuríkt fóður. Mikilvægt er að það fóður sem þeir fá á þessu aldri sé hentugt þ.e.a.s. tiltölulega mjúkt og blautt þannig að þeir vilji éta það. Það þarf líka að vera bragðgott og auðmeltanlegt þannig að þeir dafni og vaxi eins og vera ber.Þurrfóður getur þurft að bleyta upp með vatni eða mjólk þannig að hvolpar éti það.Hvolpar sem vandir hafa verið undan móður þurfa u.þ.b. 2-3 sinnum meiri orku miðað við þyngd en fullvaxinn hundur og til að byrja með skal gefa þeim 4-6 sinnum á dag. Gjöfum fækkar eftir því sem þeir stækka. Þegar þeir hafa náð helmingi af kjörþyngd sinni sem fullvaxnir hundar eiga gjafir að vera komnar niður í tvær á dag.Minni hundategundir ná fullum vexti við 9-12 mánaða aldurinn en stærri hundakyn eru ekki fullvaxta fyrr en 18-24 mánaða gamlir.

Hvolpafullar tíkur
Jafnt og með kettlingafullar læður þá þurfa hvolpafullar tíkur á síðustu vikum meðgöngu orkuríkara fóður en til viðhalds.Oftast er ekki hægt að átta sig á því hversu mörg afkvæmi koma til með að fæðast þannig að alltaf verður að búast við hámarksfjölda afkvæma við hvert got. Þetta þýðir að við verðum að gefa 2-4 sinnum meira orkuinnihald í fóðri síðustu tvær vikur meðgöngu og 4-6 vikur eftir got til þess að móðirin haldi heilsu sinni og holdum og getu til fæðingar, mjólkurmyndunar og framfærslu hvolpanna.

Eyrnabólga í hundum

Eyrnabólga er ein af algengustu ástæðum þessa að hundar þurfa aðstoð dýrlæknis. Hafi hundurinn einu sinni fengið eyrnabólgu er ekki ólíklegt að hann fái hana aftur.

Eyrnalag hundsins er öðruvísi en hjá manninum. Eyrnagönginn stefna lóðrétt niður 3-5 cm og beygja svo snögglega um 90° þar sem hljóðhimnan liggur. Vegna legu eyrnaganganna loftar ekki nógu vel inn í eyrun og myndast þá hiti og raki sem skapar kjöraðstæður fyrir bakteríur og sveppi til að fjölga sér. Hundar með síð eyru eru sérlega gjarnir á að fá eyrnabólgur. Gæta skal þess að þurrka eyru á þeim hundum sem svamla mikið í vatni því annars eru mun meiri líkur á sjúkdóminum en ella. Hundar geta verið með löng hár í eyrum og er gott að klippa þau þannig að óhreinindi safnist ekki fyrir og valdi eyrnabólgum. Verra er að plokka hárin því þá bólgna hársekkir og sýking getur komist í þá.

Ástæður eyrnabólgu eru nokkrar; bakteríusýking, sveppasýking , aðskotahlutur, ofnæmi eða sníkjudýr eins og t.d eyrnamaur. Hundur með eyrnabólgu hristir hausinn og klæjar í eyrun, stoppar jafnvel við leik eða í göngu til að klóra sér og nudda sér utan í fasta hluti. Í einstaka tilfellum klóra þeir sér það mikið eða hrista hausinn svo skarpt að æð springur í eyranu og myndast þá blóðeyra þar sem blóð safnast í eyrnablöðkunni sem oftast þarf að tæma með með lítilli aðgerð.

Það verður oft vond lykt af hundum með eyrnabólgur. Eyrun verða rauð og sár geta myndast. Útferð úr eyra er gulbrúnn eða dökkbrúnn eyrnamergur. Í langvarandi eyrnabólgum verður húðin þykk. Ef eyrnabólga er það slæm að hljóðhimna springur og sýking kemst í innra eyra getur höfuðið farið að halla og hundurinn gengur jafnvel í hringi. Þá þarf að bregðast skjótt við. Sýkingar í innra eyra geta einnig komið innan frá t.d. í gegnum blóðrásina. Ef um ofnæmi er að ræða klæjar hundinn oft á fleiri stöðun t.d undir kvið og feldurinn verður mattur og flasa myndast.

Eyrnabólgur þarf að meðhöndla strax hvort sem um bráða eða endurtekna eyrnabólgu er að ræða. Ávall skal láta dýralækni skoða eyrun áður en meðhöndlun hefst og alls ekki nota gamla dropa frá fyrri meðhöndlunum þar sem önnur ástæða getur legið fyrir eyrnabólgunni í þetta skiptið. Dýralæknir þarf að meta hljóðhimnu og útiloka að hún sé sprungin því ekki má nota eyrnalyf beint í eyrað ef hún er sködduð. Eyrnabólgur eru meðhöndlaðar með fúkkalyfjum og stundum barksterum sem draga úr bólgum og kláða. Fúkkalyfin geta verið í töfluformi eða lausn (dropar) sem sett eru beint í eyrun. Mikilvægt er þá að eyru séu hrein annars virka eyrnadroparnir ekki sem skildi. Eyru eru oft skoluð í upphafi meðferðar og er tilfellinu svo fylgt eftir þar til eyrnabólgan er alveg horfin. Í sumum tilfellum þarf að skola eyru nokkrum sinnum. Til eru eyrnahreinsar sem varast ber að ofnota því slíkt getur hreinlega valdið eyrnabólgum. Einu sinni í viku er algjört hámark þó stöku sinnum þurfi að nota þá oftar í upphafi meðhöndlunar. Í slæmum tilfellum þar sem hundur er með mikla verki vegna eyrnabólgu er oftast byrjað á lyfjameðferð, en innan fárra daga er eyrnaskolunin framkvæmd þegar mestu eymslin eru horfin. Ef erfitt er að gefa hundinum lyf í eyru skal ávallt hafa samband við dýralækni því þá gæti verið að töflur hentuðu frekar þar sem mikilvægt er að hundurinn fái lyf tvisvar á dag og að kúrinn sé kláraður. Aldrei skal nota gömul lyf í fáa daga eða setja eyrnadropa stöku sinnum í eyru því slíkt veldur vanalega því að sýkillinn verður ónæmur fyrir sýklalyfjum eða að sveppavöxtur nær yfirhöndinni. Þau tilfelli getur verið mjög erfitt að meðhöndla. Ef um undirliggjandi ofnæmi er að ræða þarf að finna ofnæmisvaldinn. Hundurinn getur verið með ofnæmi fyrir fóðrinu sem hann étur, hálsólum eða bælinu sem hann liggur í, eða öðrum ofnæmisvöldum sem hann andar að sér úr loftinu. Hundar með fóðurofnæmi eru settir á ofnæmisfóður og þegar einkenni eru horfin eru týndir inn einn og einn fæðuflokkur til að sjá hvar ástæðan geti legið. Ef um eyrnamaur er að ræða eru gefin lyf sem eru annaðhvort í sprautuformi eða hellt á bak dýranna og húðin frásogar.

Til að koma í veg fyrir eyrnabólgur er gott að skoða eyrun reglulega. Ef eyrnamergur og óhreinindi eru til staðar en enginn roði er ágætt að þrífa eyrun. Ef enginn óhreinindi eru til staðar er lang best að eiga ekkert við eyrun. Eyrnabólgur valda mikilli vanlíðan hjá dýrinu þannig að eigandi skal ávallt vera vakandi fyrir eymslum í eyrum.

Ásdís Linda Sverrisdóttir, dýralæknir.

Got hjá tíkum

Oft hringja til okkar að Stuðlum áhyggjufullir hundaeigendur með tík komna að goti. Hér er ætlunin að fjalla lítillega um gang eðlilegs gots hjá tík og benda á hvenær skal haft samband við dýralækni.

Aðdragandi gots. Tíkur ganga með hvolpana í 63 daga eftir egglos. Frá þessu eru þó ýmis frávik, því oftast er ekki vitað hvenær egglos var og “meðgögnutíminn” getur þá verið frá 58 upp í 68 dagar frá pörun. Nokkrum dögum fyrir got sígur legið niður í kviðinn svo tíkin verður “perulaga” í vextinum. Skeiðin stækkar og mýkist og oft kemur mjólk í spenana. Gott er að fylgjast með líkamshita tíkanna þegar styttist í got, því sólarhring (12-36 klst) áður en gotið hefst lækkar líkamshitinn hjá tíkinni um allt að einni gráðu, t.d. úr 38,5°C niður fyrir 37,5°C. Þegar hitinn hækkar á ný styttist í fæðingu hvolpanna. Gott er að vera búinn að mæla tíkina áður til þess að vita hver hennar venjulegi líkamshiti er.

Misjafnt eftir tíkum hvort þær vilja hafa eigandann hjá sér meðan á goti stendur. Sumar sækja traust til eiganda sinna, á meðan aðrar stressast upp og “halda í sér” þangað til þær fá næði. Verður því hver og einn að “lesa” sína tík.

Got hefst með útvíkkun. Tíkin sýnir merki um vanlíðan, er eirðarlaus, andar þungt og er símígandi. Legið er nú farið að dragast saman og tíkin notar einnig kviðvöðvana til að færa hvolp í fæðingarveginn láta hann ýta á leghálsinn sem opnast smátt og smátt. Oft kemur nú þykkt slím frá tíkinni, skeiðin mýkist upp og stækkar. Útvíkkunin tekur oftast 6 til 12 klukkustundir þó ekki sé óeðlilegt að hún geti tekið frá tveimur tímumog upp í einn og hálfan sólarhring. Líkamshitinn lækkar fyrst eins og áður sagði og hækkar þegar útvíkkun er lokið.

Fæðing hvolpanna. Hvolparnir eru hver og einn í sínum poka/fylgju sem ég segi til einföldunar að gerð sé úr tveimur lögum; ytra og innra lagi. Þegar útvíkkun er lokið verða hríðirnir markvissari og það birtist blágrár belgur í fæðingaropinu (ytra lagið). Belgurinn getur sprungið í fæðingarveginum og þá er talað um að “vatnið fari”. Fósturvatnið er oftast lyktarlaust (ekki þvaglykt) og glært eða jafnvel með grænleitum blæ. Stuttu seinna birtist gráhvít “kúla” (innra lagið), með hvolpinum í og hvolpurinn fæðist. Þegar hvolpurinn er kominn, sleikir tíkinn hann, losar hann við fósturhimnuna (pokann) og bítur sundur naflastrenginn. Ef þarf má hjálpa henni við að opna pokann og slíta naflastrenginn. Nauðsynlegt er að hafa eitthvað tiltækt til að binda/klemma fyrir naflastrenginn ef ekki hættir að blæða úr honum svo hvolpnum blæði ekki út.

Það líður vanalega skammur tími frá því að hvolpur sést í fæðinarvegi og þar til hann er kominn í heiminn Tíminn á milli hvolpa er hins vegar misjafn en eðlilegt telst frá 5 mínútum og upp í 2 klukkustundir og getur jafnvel farið upp í 4 tíma undir lok fæðingar hjá tík sem er með marga hvolpa. Miðað er við að fæðing hvolpanna eigi ekki að taka meira en 12 klukkustundir. Lengri tími en það eykur hættuna á dauðfæddum hvolpum og legbólgu.

Þegar síðasti hvolpurinn er fæddur leggst tíkin vanalega fyrir, hvílir sig og leyfir hvolpunum að sjúga. Hríðirnar hætta þá vanalega þó samdrættir eftir fæðingu þekkist.

Fæðing fylgjanna. Oftast kemur fylgjan með hverjum hvolpi, en stundum koma nokkrar fylgjur saman. Tíkurnar éta oft fylgjurnar (og ættu að fá að éta a.m.k eitthvað af þeim), en telja ætti hvort þær séu ekki jafnmargar hvolpunum. Fylgjurnar ættu að vera komnar 8 klukkustundum eftir að síðasti hvolpinum kom, annars er hætta á legbólgu.

Hreinsun. Eðlilegt er að það sé útferð frá tíkinni eftir got. Fyrst er hún dökk, jafnvel grænleit og síðar verður hún blóðlitaðri. Hreinsunin tekur oftast tvær til þrjár vikur.

Hvenær á að hafa samband við dýralækni?

1. Ef það er enginn hvolpur kominn, líkamshitinn er hækkaður upp í eðlilegan hita, tíkin er með hríðir og

* það er dökk/svartgræn útferð úr skeið
* “vatnið fór” fyrir meira en 2 klst en ekkert gerist
* vægar hríðir af og til í 2-3 klst
* kröftugar, reglubundnar hríðir í meira en 20-30 mín

2. Ef hlé verður á gotinu.

* Sjá punkta hér að ofan
* Meira en 4 klukkustundir liðnar frá því síðasti hvolpur kom og það eru fleiri í tíkinni
* Tíkin er búin að vera að í meira en 12 tíma

3. Eftir gotið ef

* fylgjurnar komu ekki allar
* óeðlilegar blæðingar eru úr skeið
* ólykt er af útferð
* tíkin er slöpp